Erlent

Knattspyrnumenn líklegri til að deyja af völdum heilabilunar en aðrir

Kjartan Kjartansson skrifar
Tengsl heilabilunar við höfuðhögg í íþróttum hafa mikið verið rædd undanfarið. Í knattspyrnu skalla leikmenn boltann reglulega.
Tengsl heilabilunar við höfuðhögg í íþróttum hafa mikið verið rædd undanfarið. Í knattspyrnu skalla leikmenn boltann reglulega. Vísir/EPA
Fyrrverandi knattspyrnumenn og þrisvar og hálfu sinni líklegri til að láta lífið af völdum heilabilunar en annað fólk á sama aldri. Rannsóknin tengist áhyggjum af því að ítrekuð höfuðhögg í knattspyrnu og öðrum íþróttagreinum geti valdið varanlegum heilaskaða í íþróttafólki.

Vísindamenn við Háskólann í Glasgow báru tæplega 7.780 látna fyrrverandi atvinnuknattspyrnumenn sem höfðu leikið á Skotlandi á árunum 1900 til 1976 saman við um 23.000 almenna borgara. Niðurstaðan var að þeir voru töluvert líklegri til að láta lífið vegna heilabilunar en aðrir, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Knattspyrnusamband Englands og Félag atvinnuknattspyrnumanna á Bretlandi létu gera rannsóknina. Willie Stewart, taugalæknir, sem leiddi rannsóknina segir að í ljós hafi komið að fyrrverandi knattspyrnumennirnir hafi verið allt að fimmfalt líklegri til að fá Alzheimers, fjórfalt líklegri til að fá hreyfitaugungahrörnun og tvöfalt líklegri til að á Parkinson en fólk almennt.

Ákveðið var að ráðast í rannsókn af þessu tagi vegna fullyrðinga um að andlát Jeff Astle, fyrrverandi framherji West Bromwich Albion, árið 2002 hafi mátt rekja til ítrekaðra höfuðhögga þegar hann skallaði þungan leðurbolta. Astle var 59 ára gamall þegar hann lést og hafði þjáðst af vitglöpum. Hann reyndist hafa orðið fyrir heilaskemmdum.

Þrátt fyrir að rannsóknin nú hafi leitt í ljós auknar líkur knattspyrnumanna á heilabilun sýndi hún einnig að lífslíkur knattspyrnumannanna í heild voru meiri en samanburðarhópsins.

Heilaskaði vegna höfuðhögga í íþróttum hefur einnig verið mikið ræddur vestanhafs í tengslum við bandarískan ruðning. Þar hafa fyrrverandi ruðningsmenn látið lífið fyrir aldur fram vegna taugahrörnunar sem tengd hefur verið við höfuðhögg.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×