Erlent

Uppfylla upprunalega kröfu mótmælenda

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Eftir fjögurra mánaða óróa, mótmæli og átök hafa stjórnvöld í kínverska sjálfsstjórnarhéraðinu Hong Kong ákveðið að draga að fullu til baka hið svokallaða framsalsfrumvarp. Þetta frumvarp var dropinn sem fyllti mælinn hjá mótmælendum á sínum tíma. Það hefði heimilað framsal frá Hong Kong til meginlands Kína, Taívans og Macau.

„Vegna skiptra skoðana um frumvarpið hafa verið átök. Eftir að hafa rannsakað málið hafa stjórnvöld ákveðið að draga frumvarpið alfarið til baka,“ sagði John Lee, öryggismálastjóri Hong Kong, á þinginu í dag.

Frumvarpið var lagt fram vegna máls Chan Tong-kai, sem yfirvöld í Taívan saka um að hafa myrt kærustu sína. Hann var leystur úr haldi í Hong Kong í dag og sagðist ætla að gefa sig fram við taívönsk yfirvöld.

Fjórum kröfum mótmælenda er enn ósvarað. Þeir vilja að dregin séu til baka ummæli þar sem mótmælin eru kölluð óeirðir, að handteknir mótmælendur verði leystir úr haldi og ekki ákærðir, að óháð rannsókn fari fram á aðgerðum lögreglu og að íbúar borgarinnar fái fullan rétt til þess að velja sér þing og leiðtoga.

Financial Times hafði eftir heimildarmönnum í gær að að miðstjórn Kommúnistaflokksins ætlaði að reka Carrie Lam, æðsta Hong Kong, úr embætti. Þessu hafnaði upplýsingafulltrúi kínverska utanríkisráðuneytisins.

„Þetta eru pólitískir orðrómar, settir fram í annarlegum tilgangi. Miðstjórnin mun halda áfram að styðja Carrie Lam og stjórnvöld,“ sagði Hua Chunying upplýsingafulltrúi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×