Fótbolti

Ein besta knattspyrnukona heims er ófrísk en ætlar ekki að missa af ÓL 2020

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alex Morgan með HM-bikarinn og silfurskóinn sem hún vann á HM 2019.
Alex Morgan með HM-bikarinn og silfurskóinn sem hún vann á HM 2019. Getty/Quality Sport Images
Fyrirliði heimsmeistaraliðs Bandaríkjanna og ein allra besta knattspyrnukona heims lét vita af því í gær að hún á von á barni.

Alex Morgan og eiginmaður hennar Servando Carrasco létur vita af því á Instagram  að þau eiga von á sínu fyrsta barni í apríl.





„Við erum strax orðin ástfangin af henni og við höfum ekki hitt hana ennþá. Nýjasti meðlimur Carrasco fjölskyldunnar kemur fljótlega í heiminn,“ skrifaði Alex Morgan.

Alex Morgan verður því í barneignarfríi næstu mánuðina. Hún mun missa af byrjun tímabilsins með Orlando Pride og undankeppni Ólympíuleikanna með bandaríska landsliðinu.

Heimildir ESPN er hins vegar þær að Alex Morgan ætli sér að vera með á Ólympíuleikunum í Tókýó næsta sumar sem fara fram um þremur mánuðum eftir að hún eignast barnið. Ólympíuleikarnir hefjast 22. júlí.

Alex Morgan ætlar sér líka að vera með á HM 2023 en þá verður hún orðin 34 ára gömul. Hún var búin að gefa það út áður en það varð opinbert að hún væri ófrísk.





Alex Morgan er frábær leikmaður og hefur 107 mörk í 169 landsleikjum. Hún skoraði sex mörk á HM í sumar og var markahæst en missti af gullskónum þar sem liðsfélagi hennar, Megan Rapinoe, spilaði færri leiki.

Alex Morgan hefur tvisvar orðið heimsmeistari með bandaríska landsliðinu og vann Ólympíugull í London 2012.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×