Tíska og hönnun

„Einstakt tækifæri fyrir íslenska hönnuði“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Kristín hér til vinstri og til hægri má sjá mynd úr gestastofa þjóðgarðsins á Þingvöllum sem hlotið hefur tvenn Red Dot verðlaun 2019
Kristín hér til vinstri og til hægri má sjá mynd úr gestastofa þjóðgarðsins á Þingvöllum sem hlotið hefur tvenn Red Dot verðlaun 2019
Verðlaun Art Directors Club of Europe (ADC*E) verða veitt í 29. sinn í Barcelona í byrjun nóvember næstkomandi.

Félag íslenskra teiknara er aðili að ADC*E og heldur utan um þátttöku Íslands í keppninni, auk þess að standa fyrir FÍT keppninni  ár hvert.

Verðlaunin endurspegla allt það besta í grafískri hönnun á hverjum tíma en verðlaunaverk hvers lands eru send í keppnina sem eru svo dæmd af 60 fagaðilum alls staðar að úr Evrópu. 

Kristín Eva Ólafsdóttir er formaður FÍT og á sæti í stjórn ADC*E en hún er jafnframt fyrsta konan frá stofnun félagsins 1953 til að gegna því embætti. Að hennar sögn hefur verið lögð mikil áhersla undanfarið ár hjá FÍT að kynna félagsmenn og fjölbreytileika fagsins sem spannar vítt svið.

„Velgengni íslenskra hönnuða á erlendri grundu fyrr á árinu sannar að við eigum fullt erindi í keppni sem þessa en þrenn íslensk verkefni úr FÍT keppninni 2019 hafa sópað til sín tilnefningum og verðlaunum erlendis það sem af er ári; UN Women „Kynbundið ofbeldi er nær en þú heldur“ hlaut meðal annars gullverðlaun Clio og tilnefningu á Cannes Lions verðlaunahátíðinni, mörkun Þjóðminjasafns Íslands hlaut tvær tilnefningar til D&AD verðlaunanna í Bretlandi, auk tilnefningar til „The One Show“ verðlaunanna og Hönnunarverðlauna Íslands 2019,“ segir Kristín.

„Að endingu hefur gestastofa þjóðgarðsins á Þingvöllum hlotið tvenn Red Dot verðlaun 2019 sem er einstaklega mikill heiður. Það verður því gaman að sjá hvort velgengnin heldur áfram í Barcelona.“

Herferð UN Women keppir fyrir Íslands hönd.
Íslendingar eiga þrjá dómnefndarfulltrúa í keppninni en þau eru Alexandra Buhl grafískur hönnuður hjá Forlaginu, Guðmundur Bjarni Sigurðsson eigandi Kosmos og Kaos og Rósa Hrund Kristjánsdóttir, hönnunarstjóri á Hvíta húsinu. Þau hafa margra ára reynslu í faginu og munu öll miðla þessari reynslu sem yfirdómarar í FÍT 2020 keppninni á Íslandi.

„Það er einstakt tækifæri fyrir íslenska hönnuði að fá að sitja í dómnefnd sem þessum, það stækkar ekki bara tengslanetið og skapar tækifæri, það er einnig mikilvægt að fá að taka þátt í rökstuddum umræðum um fagið og skoða allt það besta frá hverju landi fyrir sig sem gefur mikinn innblástur. Þessa reynslu fáum við svo heim í næstu FÍT keppni sem gerir keppnina faglegri.“

Meðal verkefna sem voru verðlaunuð á FÍT 2019 og keppa fyrir Íslands hönd eru:

  • Nýtt einkenni Þjóðminjasafns Íslands sem hlaut aðalverðlaun FÍT 2019 
  • Kynbundið ofbeldi er nær en þú heldur fyrir UN Woman Íslands í flokknum auglýsingaherferðir.
  • Sextíu kíló af sólskini fyrir Hallgrím Helgason í flokknum bókakápur.
  • Þjóðgarðurinn á Þingvöllum í flokknum gagnvirk miðlun og upplýsingahönnun. 
  • Útmeða fyrir Geðhjálp í flokknum myndlýsingar fyrir auglýsingar og herferðir. 
  • Vesturbyggð í flokknum mörkun fyrirtækja. 
  • Flóra Íslands í flokkum bókahönnun.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×