Innlent

Rákust á í hálkunni við Turninn

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá vettvangi á rampinum í morgun.
Frá vettvangi á rampinum í morgun. Mynd/Aðsend
Fimm bíla árekstur varð á rampinum á milli Deloitte-turnsins og Smáralindar í Kópavogi í morgun. Vinna stóð enn yfir á vettvangi á ellefta tímanum og því takmarkaðar upplýsingar að fá um slysið frá lögreglu og slökkviliði.

Gunnar Hilmarsson aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir í samtali við Vísi að svo virðist sem að minnsta kosti fjórir bílar hafi runnið í hálkunni, sem gætt hefur víða á höfuðborgarsvæðinu í morgun, og rekist á. Ef marka má mynd af vettvangi virðist sem í það minnsta tveir bílar hafi verið fluttir af slysstað til viðbótar. Ekki er vitað um slys á fólki.

Alls hefur verið tilkynnt um sjö umferðarslys, öll hálkutengd, frá miðnætti og þar til nú. „Þemað í morgun hafa verið þessir árekstrar, það er alveg glerhált,“ segir Gunnar.

Þannig var veginum um Flóttamannaleið lokað í morgun þegar söltunarbíll valt á fólksbíl í hálkunni. Veginum verður áfram lokað fram eftir morgni, eða þangað til öryggi á honum hefur verið tryggt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×