Fótbolti

Deschamps: Berum mikla virðingu fyrir íslenska liðinu

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Didier Deschamps, landsliðsþjálfari Frakka.
Didier Deschamps, landsliðsþjálfari Frakka. Vísir/Getty
Didier Deschamps, landsliðsþjálfari Frakklands, sat fyrir svörum á Laugardalsvelli í dag en á morgun mun lið hans etja kappi við strákana okkar í undankeppni EM 2020.

Frakkland vann 4-0 sigur í fyrri leik liðanna sem fram fór ytra í mars á þessu ári en Deschamps segir öðruvísi að glíma við íslenska liðið á Laugardalsvelli.

„Íslenska liðið hefur sýnt styrk sinn á heimavelli. Þeir eru beinskeyttir og ógna með föstum leikatriðum. Þeir hafa fleiri en eina útfærslu af löngum innköstum og eru líkamlega sterkir. Þetta er gott lið og við berum virðingu fyrir þeim.“

„Völlurinn er góður en þetta eru sérstakar aðstæður þar sem völlurinn er mjög opinn. Við erum ekki vanir slíkum völlum,“ segir Deschamps.

Nokkrir af bestu leikmönnum heims eru ekki með franska liðinu í þessu verkefni vegna meiðsla og ber þar helsta að nefna Paul Pogba, Kylian Mbappe og Hugo Lloris.

„Það vantar góða leikmenn í okkar lið en við höfum góða breidd svo ég hef ekki áhyggjur af fjarveru þeirra. Við hefðum að sjálfsögðu viljað hafa Pogba og Lloris með okkur hérna og Mbappe vildi virkilega mikið spila þennan leik en við mátum það sem svo að það væri ekki skynsamlegt,“ segir Deschamps.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×