Lífið

Óvænt bið eftir borðum og rífandi sala fylgifiskur Ferrell og Brosnan á Húsavík

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Pierce Brosnan var reffilegur á Húsavík í dag.
Pierce Brosnan var reffilegur á Húsavík í dag. Vísir
Það stendur mikið til á Húsavík um helgina en tökur á Eurovision-mynd Will Ferrell eru hafnar. Stórstjörnurnar eru mættar í bæinn og spenningur meðal bæjarbúa er áþreifanlegur. Almenn ánægja ríkir í bænum með að Húsavík hafi orðið fyrir valinu.

Húsavík er undirlögð kvikmyndatökuliði en hátt í 200 manns koma að tökunum, þar á meðal Hollywood-stjörnur á borð við Will Ferrell og Pierce Brosnan, sem eiga að leika Íslendinga í myndinni. Fréttamaður eyddi lungann úr deginum á Húsavík og ræddi þar við fjölmarga íbúa.

Sjá einnig: Verkalýðsforingi sneri baki við mögulegum frama í Hollywood

Ferrell kom til landsins í gær með einkaþotu og Brosnan, Piece Brosnan, hafði komið nokkrum dögum áður. Þegar fréttamann bar að garði í dag dvöldu þeir báðir í glæsivögnum í litlu hjólhýsaþorpi sem komið hefur verið fyrir við höfnina í bænum. Voru þeir ferjaðir á milli tökustaða í glæsibifreiðum sem bakkað var alveg upp að vögnum þeirra.

Lítið hjólhýsaþorp hefur sprottið upp við höfnina.Vísir.

Vertarnir ánægðir

Meðal þess sem kom fram í óformlegu spjalli íbúa við blaðamann í dag var að komu tökuliðsins á Húsavík í gær hafi fylgt rífandi sala á pollabuxum og öðrum útivistarfatnaði, enda var úrhellisrigning allan gærdaginn.

Sjá einnig: Hollywood-stjörnur setja Húsavík á annan endann



Þá nefndu íbúar einnig að panta þyrfti borð á veitingastöðum í bænum, sem væri óvenjulegt á þessum árstíma. Því kemur ekki á óvart að þeir vertar sem fréttamaður ræddi við voru afar kátir með að tökuliðið væri í bænum.

Þetta verður líklega algeng sjón um helgina. Tökuliðið er á víð og dreif um bæinn.Vísir.

„Það er ekkert að því að gera grín að okkur hér, bara eins og öðrum“

Þá ræddi fréttamaður einnig við Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóra í Norðurþings sem var ánægður með að Húsvíkingar hafi fengið hlutverk sem aukaleikarar í myndinni. Vonar hann að þeir steli senunni.

Sjá einnig: Hjálpaði Ferrell og McAdams með íslenskan framburð fyrir Eurovision-myndina

„Þessar stjörnur sem að við sjáum dags daglega alla daga hér á Húsavík, ég vona að þær rati inn á hvíta tjaldið sömuleiðis með þeim sem eru að koma,“ sagði Kristján Þór sem gerir fastlega ráð fyrir þv að athyglin sem Húsavík fái vegna myndarinnar verði ekki önnur en jákvæð.

Nú er Will Ferrell þekktur háðfugl, þið hafið ekkert áhyggjur af því að Húsavík komi kannski eitthvað skringilega út úr þessu öllu saman?

„Nei, ég hef ekki miklar áhyggjur af því. Hann er duglegur að gera grín að sjálfum sér og það er ekkert að því að gera grín að okkur hér, bara eins og öðrum. Þetta er bara jákvæður atburður og verður örugglega lengi í minnum hafður hér.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×