Erik Hamrén, landsliðsþjálfari Íslands, segir útilokað að Jóhann Berg Guðmundsson spili gegn Andorra í undankeppni EM á mánudaginn. Kantmaðurinn haltraði af velli eftir kortersleik í Laugardalnum í kvöld.
Ljóst er að um mikla blóðtöku er að ræða fyrir íslenska liðið en Aron Einar Gunnarsson landsliðsfyrirliði er sömuleiðis frá vegna meiðsla.
Þá fór Rúnar Már Sigurjónsson af velli seint í leiknum og segir Hamrén tvísýnt um þátttöku hans á mánudag. Ísland verður að vinna síðustu þrjá leiki sína í riðlinum, til að eiga von á öðru sæti riðilsins, og treysta á að Frakkar vinni Tyrki í París á mánudag .
