Innlent

Námskeið vekur athygli

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Ana Aleksic, fulltrúi nemenda, Guðlaug Stella Brynjólfsdóttir og Nicole Leigh verkefnastjórar og Elísabet Karlsdóttir, forstöðumaður Gerðubergs, tóku á móti merkinu.
Ana Aleksic, fulltrúi nemenda, Guðlaug Stella Brynjólfsdóttir og Nicole Leigh verkefnastjórar og Elísabet Karlsdóttir, forstöðumaður Gerðubergs, tóku á móti merkinu.
Verkefnið Stígum saman miðar að því að bæta íslenskukunnáttu kvenna af erlendum uppruna á vinnustöðum hér á landi og bjóða upp á starfstengt námskeið til að efla þekkingu þeirra og færni í starfi, fræða þær um réttindi og skyldur og vinna að sjálfstyrkingu þeirra og frumkvæði.

Nicole Leigh Mosty, sem hefur búið hér á landi í tæp 20 ár, lýsir verkefninu nánar.

„Við nýtum aðferðafræði við kennslu sem kallast Íslenskuþorp og er viðurkennd af Háskóla Íslands en höfundar að verkefninu Stígum saman erum við Guðlaug Stella Brynjólfsdóttir. Við byrjuðum á að laga það sérstaklega að störfum á leikskólum þar sem við reynum að styrkja þátttakendur bæði á vinnustaðnum og úti í samfélaginu.“

Nicole segir þær Guðlaugu fara í þrjár heimsóknir á vinnustaðina meðan námskeiðið varir. „Þó að það standi bara í sex vikur skilar það góðum árangri. Þátttakendur fengu leiðsögn hjá okkur Guðbjörgu Stellu í því hvað fleira þeir gætu gert til að valdefla sig og við bentum þeim á námsefni,“ segir hún. „Verkefnið hefur sýnt fram á að nemendur töluðu meiri íslensku að því loknu, sýndu meira sjálfsöryggi og voru reiðubúnari til að takast á við meiri ábyrgð á sínum vinnustað.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×