Erlent

Sigursæll borgarstjóri Búdapest ætlar að mynda mótvægi við Viktor Orbán

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Gergely Karacsony, nýr borgarstjóri í Búdapest.
Gergely Karacsony, nýr borgarstjóri í Búdapest. Nordicphotos/Getty
„Við höfum eytt goðsögninni um að Fidesz sé ósigrandi og þetta hefur gríðarleg áhrif fyrir allt landið,“ sagði Gerg­ely Karacsony, nýr borgarstjóri í Búdapest, í viðtali í gær. Karacsony vann óvæntan sigur í kosningum á sunnudag og lagði Istvan Tarlos að velli, en hann hefur verið borgarstjóri síðan 2010 fyrir Fidesz, harðlínu hægriflokk forsætisráðherrans Viktors Orbán. Alls sigraði stjórnarandstaðan í 10 af 23 stærstu borgunum.

Karacsony, sem tekur við embætti í dag, hefur heitið því að mynda mótvægi við ríkisstjórnina út á við og gagnvart Evrópusambandinu, í samstarfi við Rafal Trzaskowski, hinn frjálslynda borgarstjóra Varsjár. Fidesz og Lög og réttlæti, stjórnarflokkarnir í Ungverjalandi og Póllandi, hafa verið tregir og ögrandi gagnvart Evrópusambandinu á undanförnum árum.

Á fyrsta embættisdegi sínum ætlar Karacsony að senda Orbán bréf um samstarf á ýmsum sviðum. Hann segist vilja gott samstarf við ríkisstjórnina en ef sá vilji er ekki gagnkvæmur sé hann ekki hræddur við átök. Í sumum málaflokkum verði honum ekki haggað, svo sem í umhverfismálum og mannréttindamálum.

Fidesz-liðar tóku ósigrinum illa og hafa þegar hafið rógsherferð gegn Karacsony. Segja þeir að hann hafi unnið kosningarnar á atkvæðum frá útlendingum. Orbán sjálfur hefur hins vegar reynt að gera lítið úr úrslitunum og bendir frekar á kosningatölur í dreifbýlinu þar sem Fidesz gekk betur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×