Skoðun

Upphaf að vegferð

Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir og Hilmar Veigar Pétursson skrifar
Ein áskorun hátækni- og hugverkafyrirtækja er að sækja hæfileikaríkt fólk með sérfræðiþekkingu á fjölbreyttum sviðum, og íslensk fyrirtæki eru þar ekki undanskilin. Það er ekki að ástæðulausu að fyrirtæki af ýmsum stærðum og í fjölbreyttum atvinnugreinum eigi rætur sínar að rekja til Íslands og að ný spretti upp hér á landi. En til þess að bæði sprotar og stærri fyrirtæki haldi áfram að vaxa og dafna, er öflugt hugvit og ríkur mannauður nauðsynlegt.

Að sama skapi er fjölbreytileiki einstakur styrkleiki fyrir fyrirtæki, ekki síst þeirra sem hugsa stórt – hvort sem það er í markaðssókn eða uppfinningum. Samhliða því að efla enn frekar þekkingu og færni ungs fólks og þeirra sem eru nú þegar á atvinnumarkaði hér á landi, getur aðgangur að alþjóðlegum mannauðsmarkaði verið stökkbretti fyrir íslensk fyrirtæki að frekari vexti og verðmætasköpun.

Hilmar Veigar Pétursson forstjóri CCP
Forsenda þess að laða að hæfileikaríka einstaklinga er að þessi markaður sjái Ísland sem ákjósanlegan stað til búsetu og vinnu. Nýr vefur, Work in Iceland, heildstæð upplýsingagátt á ensku er framfaraskref á þeirri vegferð að efla samkeppnishæfni hátækni- og hugverkaiðnaðar hér á landi. Á vefnum er hægt að nálgast allar upplýsingar um það ferli að flytja til Íslands vegna vinnu auk þess sem kostir þess að búa á Íslandi eru reifaðir.

Vefurinn er liður í því mikilvæga verkefni að fá sérfræðinga til landsins sem stuðla að enn frekari uppbyggingu á innlendri þekkingu og getu, og áframhaldandi nýsköpun á ýmsum sviðum, enda stendur fjöldi íslenskra fyrirtækja frammi fyrir spennandi tækifærum til vaxtar og framfara í þágu samfélagsins. Opnun þessarar nýju upplýsingagáttar er upphafið að vegferð og samstarf atvinnulífsins og stjórnvalda er einkar mikilvægt til að ná enn meiri árangri á sviði hátækni- og hugverkaiðnaðar. Það mun skila sér í auknum útflutningi á þessu sviði, nýrri þekkingu í íslensku atvinnulífi, auknum fjölbreytileika og bættum lífskjörum.




Skoðun

Sjá meira


×