Að sama skapi er fjölbreytileiki einstakur styrkleiki fyrir fyrirtæki, ekki síst þeirra sem hugsa stórt – hvort sem það er í markaðssókn eða uppfinningum. Samhliða því að efla enn frekar þekkingu og færni ungs fólks og þeirra sem eru nú þegar á atvinnumarkaði hér á landi, getur aðgangur að alþjóðlegum mannauðsmarkaði verið stökkbretti fyrir íslensk fyrirtæki að frekari vexti og verðmætasköpun.

Vefurinn er liður í því mikilvæga verkefni að fá sérfræðinga til landsins sem stuðla að enn frekari uppbyggingu á innlendri þekkingu og getu, og áframhaldandi nýsköpun á ýmsum sviðum, enda stendur fjöldi íslenskra fyrirtækja frammi fyrir spennandi tækifærum til vaxtar og framfara í þágu samfélagsins. Opnun þessarar nýju upplýsingagáttar er upphafið að vegferð og samstarf atvinnulífsins og stjórnvalda er einkar mikilvægt til að ná enn meiri árangri á sviði hátækni- og hugverkaiðnaðar. Það mun skila sér í auknum útflutningi á þessu sviði, nýrri þekkingu í íslensku atvinnulífi, auknum fjölbreytileika og bættum lífskjörum.