Erlent

Verka­manna­flokkurinn beið af­hroð í norsku sveitar­stjórnar­kosningunum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Jonas Gahr Støre, formaður Verkamannaflokksins, er skiljanlega ekki ánægður með útkomu flokksins í kosningunum í gær.
Jonas Gahr Støre, formaður Verkamannaflokksins, er skiljanlega ekki ánægður með útkomu flokksins í kosningunum í gær.

Verkamannaflokkurinn beið afhroð í norsku sveitarstjórnarkosningunum sem fram fóru í gær. Hlaut flokkurinn verstu kosningu í sögunni og tapaði 8,2 prósentum frá því í síðustu sveitarstjórnarkosningum sem fóru fram árið 2015.



Að því er kemur á vef norska ríkisútvarpsins flokkurinn nú 24,8 prósent á landsvísu en versta útreið flokksins hingað til hafði verið í kosningunum 2003 þegar flokkurinn hlaut 27 prósent atkvæða.



Hinn stóri flokkurinn í norskum stjórnmálum, Hægriflokkur Ernu Solberg, forsætisráðherra, tapaði einnig fylgi frá því í kosningunum 2015. Flokkurinn fær nú um 20 prósent atkvæða sem er þremur prósentum lægra en fyrir fjórum árum.



Miðflokkurinn var svo sá flokkur sem bætti mestu við sig á landsvísu eða alls um sex prósentum og fær nú 14,4 prósent atkvæða. Umhverfisflokkurinn sækir einnig í sig veðrið á sveitarstjórnarstiginu í Noregi; bætir við sig 2,4 prósentum og er með 6,7 prósent fylgi.



Flokkurinn er sérstaklega sterkur í höfuðborginni Osló og í Bergen þar sem hann nánast tvöfaldar fylgi sitt frá því fyrir fjórum árum.



Á meðan tapa Verkamannaflokkurinn og Hægriflokkurinn fylgi í borgunum. Í Osló missti Verkamannaflokkurinn 11,9 prósent fylgi og Hægriflokkurinn 6,4 prósent fylgi.



„Við getum ekki verið ánægð sem flokkur í Noregi í dag. Metnaður okkar fyrir flokkinn, fyrir stjórnmálin og fyrir landið er meiri en þetta,“ sagði Jonas Gahr Støre, formaður Verkamannaflokksins, þegar hann ávarpaði stuðningsmenn flokksins á kosningavöku í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×