Innlent

Ferðamaður gripinn í flugvél með stolinn merkjafatnað úr fríhöfninni

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ekki kemur fram í tilkynningu lögreglu hvaða verslun í fríhöfninni um ræðir.
Ekki kemur fram í tilkynningu lögreglu hvaða verslun í fríhöfninni um ræðir. Vísir/vilhelm
Erlendur ferðamaður var í vikunni handtekinn um borð í flugvél á Keflavíkurflugvelli eftir að hafa stolið fatnaði úr fríhöfninni að verðmæti nær 50 þúsund krónum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu á Suðurnesjum.

Í tilkynningu segir að ferðamaðurinn hafi farið í þrígang inn í tiltekna verslun á flugvellinum og í hvert skipti haft á brott með sér varning án þess að greiða fyrir hann. Lögregla hafði hendur í hári ferðamannsins þegar hann var kominn um borð í flugvél á vellinum, þar sem hann heimilaði leit í bakpoka sem hann hafði meðferðis.

Í bakpokanum fannst „merkjafatnaður með verðmiðum á“, að því er segir í tilkynningu, samtals að verðmæti nær 50 þúsund krónum, eins og áður segir.

Ferðamaðurinn viðurkenndi að hafa tekið fötin án þess að greiða fyrir þau og bar fyrir sig að hann hefði hvorki verið með reiðufé né greiðslukort til að borga fyrir varninginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×