Lög sem þingið samþykkti áður en Johnson frestaði þingfundum á mánudag skikkar forsætisráðherrann til að sækja um þriggja mánaða frestun á útgöngunni til Evrópusambandsins nema þingið samþykki útgöngu með eða án samnings fyrir 31. október, fyrirhugaða útgöngudaginn.
Johnson sagðist nýlega frekar vilja „liggja dauður í skurði“ en sækja um frest til Brussel.
Í erindi sem John Bercow, fráfarandi þingforseti, flutti í London sagði hann að það gæti ekki komið til tals að ríkisstjórnin hunsaði lög. Slíkt væri hræðilegt fordæmi fyrir samfélagið, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.
„Sannarlega, í Bretlandi nútímans, í þingbundnu lýðræði, getum við þingmenn, löggjafar ekki með góðri samviku deild um hvort að það þurfi eða þurfi ekki að fylgja lögum,“ sagði Bercow sem lýsti það „undravert“ að nokkur hefði gefið því undir fótinn.
Dominic Raab, utanríkisráðherra, hefur sagt að ríkisstjórnin ætli að fara eftir lögum en að hún ætli að láta reyna að „ystu mörk“ hvers þau krefjist af ráðherrum.
„Maður ætti ekki frekar að hafna því að biðja um frest á 50. greininni [Lissabonssáttmálans sem var virkjuð til að hefja útgöngu Breta] vegna þess sem maður gæti talið göfugt markmið um að ganga úr ESB eins fljótt og mögulegt er en að maður gæti mögulega afsakað að ræna banka á grundvelli þess að þýfið yrði strax gefið til góðgerðarmála eftir á,“ sagði Bercow.
Þingið stöðvi lögbrot ríkisstjórnar, hvað sem reglum líði
Bercow sagði í erindi sínu að reyni ríkisstjórnin að hunsa lög sem þingið hefur sett um Brexit þurfi þingið að stöðva það af ákveðni.„Krefjist það skapandi þingskapa til að greiða götu þess er það fullvíst að það gerist og að hvorki takmarkanir né núverandi reglur, né tifandi klukkan mun koma í veg fyrir það,“ sagði þingforsetinn.
Eina útgáfa Brexit sem yrði ofan á yrði sú sem þingið hefði sérstaklega samþykkt.
Þrátt fyrir að Bercow hafi upphaflega verið kjörinn á þing fyrir Íhaldsflokkinn nýtur hann ekki sérstakra vinsælda þar lengur, meðal annars vegna þess hvernig hann hefur tekið á útgöngumálum í þinginu. Ummæli hans í erindinu í London féllu grýttan jarðveg hjá sumum íhaldsmönnnum.
Bernard Jenkin, þinmaður Íhaldsflokksins og útgöngusinni, sagði þannig að hlutverk þingforsetans hafi orðið róttæknihænt og pólitískt á óafturkræfan hátt. Bercow ætlar að stíga til hliðar sem þingforseti á næstu vikum. Verði Johnson forsætisráðherra af vilja sínum að boða til kosninga um miðjan október segist Bercow ekki ætla að bjóða sig fram, að öðrum kosti hætti hann í lok október. Hann hefur gegnt embættinu frá árinu 2009.