„Það eru engin slík líkindi milli laganna sem gefa til kynna að You Raise Me Up sé stæling á Söknuði,“ sagði í greinargerð fyrir hönd Warner Music og Universal Music.
„Sérfræðingur hinna stefndu fórnaði trúverðugleika sínum með því að halda fram að lögin líkist ekki og með því að nota gallaða aðferðafræði,“ segir hins vegar í greinargerð lögmanns Jóhanns, Michaels Machat, sem lögð var fram á föstudag við dómstól í Los Angeles.
Á föstudag var einnig lögð fram greinargerð doktor Judith Finell, tónlistarfræðings og sérfræðings fyrir hönd lögmanns Jóhanns Helgasonar. Segir þar að líkindin milli Söknuðar og You Raise Me Up séu mikil. Þau séu meiri milli þessara tveggja laga innbyrðis heldur en milli þeirra hvors um sig og eldri tónsmíða sem Ferrara nefnir.
Líkt og Ferrara hefur Finell komið sem sérfræðingur að fjölmörgum dómsmálum. Hún var meðal annars sérfræðivitni fyrir fjölskyldu Marvins Gaye í tímamótamáli þar sem dæmt var að lagið Blurred Lines væri stuldur á laginu Got to Give It Up eftir Gaye.

Í greinargerð sinni segir Finell að Ferrara noti annars vegar gríðarlega þrönga skilgreiningu í samanburði á Söknuði og You Raise Me Up en beiti hins vegar miklu víðari skilgreiningu í samanburði á lögunum tveimur við eldri verk.
„Þessi mótsögn leiðir lesandann og ályktanirnar að rangri og óáreiðanlegri niðurstöðu,“ segir hún.
Lögmenn Universal og Warner hafa krafist frávísunar málsins. Michael Machat segir að þar sem þeir beri hvorki brigður á höfundarrétt Jóhanns að Söknuði né dragi í efa að Rolf Lövland hafi haft aðgang að íslenska laginu snúist málið um líkindi milli laganna.
„Sérfræðiskýrsla stefndu er byggð á gallaðri aðferðafræði og skilgreiningum sem beitt er á mismunandi veg. Í henni tekst ekki að afsanna hin augljósu líkindi milli Söknuðar og You Raise Me Up,“ segir Machat. Því beri að hafna kröfunni um frávísun.
„Ferrara beitir vafasömum röksemdum vegna þess að honum er borgað fyrir það,“ segir í greinargerð lögmanns Jóhanns. Og um mikla peninga er að tefla því samkvæmt frétt á vefsíðu Universal frá 2016 er You Raise Me Up eitt tekjuhæsta lag allra tíma.