Fótbolti

Fyrrum leikmaður Rangers og hollenska landsliðsins lést aðeins 43 ára gamall

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fernando Ricksen með eiginkonunni Veroniku og dótturinni Ísabellu.
Fernando Ricksen með eiginkonunni Veroniku og dótturinni Ísabellu. Vísir/VI Images
Knattspyrnumaðurinn Fernando Ricksen er allur en hann lést aðeins sex árum eftir að hafa komist að því að hann væri með taugasjúkdóm.

Rangers lét vita af örlögum Fernando Ricksen á miðlum sínum í dag þar sem félagið minntist öflugs leikmanns sem átti mörg góð ár hjá félaginu. Hugur allra eru hjá eiginkonu hans Veroniku og dótturinni Ísabellu sem er bara átta ára gömul.





Fernando Ricksen átti farsælan feril í Hollandi, Skotlandi og Rússlandi og lék tólf landsleiki með Hollendingum frá 2000 til 2003. Síðasti landsleikur hans var á móti Portúgal 30. apríl 2003.

Fernando Ricksen fæddist í júlí 1976 og hélt því upp á 43 ára afmælið sitt í sumar. Hann sagði frá því árið 2013 að hann væri með banvænan hrörnunarsjúkdóm og sögu hans var einnig gerð skil í heimildarmyndinni „Fernando Ricksen: Hard Times“ sem var sýnd árið 2015.





Ricksen lék með Fortuna Sittard og AZ Alkmaar í heimalandinu áður en hann fór í víking til Glasgow Rangers 24 ára gamall árið 2000. Hann fór frá Rangers til Zenit Saint Petersburg en endaði síðan ferilinn þar sem hann byrjaði hann eða hjá hollenska félaginu Fortuna Sittard.

Ricksen lék í sex ár með Rangers liðinu og alls 182 leiki. Hann vann fjölda titla með félaginu þar á meðal skoska meistaratitilinn tvisvar sinnum eða 2003 og 2005.

Fernando Ricksen var vinsæll leikmaður hjá Rangers en hann var valinn leikmaður ársins tímabilið 2004-05 þegar liðið vann tvennuna og Ricksen skoraði 9 mörk af miðjunni.

Fernando Ricksen fékk góðgerðaleik hjá Rangers í janúar 2015 en á hann mættu 41 þúsund manns og söfnuðust 320 þúsund pund. Peningarnir, um 50 milljónir í íslenskum krónum, skiptust á milli Fernando, Ísabellu dóttur hans, góðgerðasamtaka Rangers og MND samtakanna í Skotlandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×