Samdráttur hefur verið í innanlandsflugi á þessu ári. Farþegum á Reykjavíkurflugvelli á fyrstu sjö mánuði ársins fækkaði um 12,4 prósent. Á Egilsstaðaflugvelli nam fækkunin 14 prósentum, á Akureyrarflugvelli 6,4 prósentum og 19,6 prósentum á öðrum flugvöllum utan Keflavíkur. Árni Gunnarsson framkvæmdarstjóri Air Iceland Connect var á Sprengisandi í morgun.
„Það eru óvenju miklar sveiflur í þessum rekstri á þessu ári þannig er samdrátturinn á þessu ári meiri en við höfum séð á undanförnum árum,“ segir framkvæmdastjórinn.
Árni segir að samdrátturinn nú tengist beint afkomunni á landsbyggðinni.
„Við höfum í rekstrinum verið að reyna að halda úti áætlun sem er umfangsmeiri en markaðurinn gerir tilefni til. Höfum ekki náð að halda í þessa fækkun.“
Hann týnir til ýmsar leiðir til að gera rekstrargrundvöll innanlandsflugs betri.
„Það væri hægt að fullfjármagna rekstur Isavia á innanlandsflugvöllunum. Við borgum lendingargjöld, farþegagjöld, og flugleiðsögugjöld sem er um 10%-15% af hverjum farmiða af verðinu.“
Þá bendir hann á að hið opinbera gæti ákveðið að styrkja innanlandsflug til ákveðinn áfangastaða. Loks sé hægt að fara hina svokölluðu skosku leið þar sem íbúar á landsbyggðinni eru styrktir til að fljúga innanlands. Alvarleg staða blasi við verði ekkert gert.
„Þróunin getur orðið þannig að það getir orðið mjög skert tíðni og þjónusta ef við höldum áfram á þessari leið sem við erum núna, nema eitthvað komi inn í ef ekkert verður að gert sjáum við fram á verulega skerta þjónustu,“ sagði Árni Gunnarsson framkvæmdastjóri Air Iceland Connect í Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.