Erlent

Skiptar skoðanir í Noregi um ákvörðun Alþingis í orkupakkamálinu

Eiður Þór Árnason skrifar
Kathrine Kleveland, formaður norsku samtakanna Nei til EU, og Knut Kroepelien, framkvæmdarstjóri Energi Norge, deila ekki sömu afstöðu til ákvörðunar Alþingis.
Kathrine Kleveland, formaður norsku samtakanna Nei til EU, og Knut Kroepelien, framkvæmdarstjóri Energi Norge, deila ekki sömu afstöðu til ákvörðunar Alþingis.
Alþingi samþykkti í dag innleiðingu þriðja orkupakkans eftir langa umræðu, með 46 atkvæðum gegn 13. Þriðji orkupakkinn hefur verið mikið hitamál bæði hér á landi og í Noregi en höfnun Alþingis hefði komið í veg fyrir innleiðingu Norðmanna, þar sem innleiðing pakkans krefst samþykkis allra þriggja EFTA/EES-ríkjanna.

Ljóst er að fjölmargir í Noregi fylgdust grannt með meðferð málsins á Íslandi og hafa þar eins verið skiptar skoðanir um málið.

Norskur orkuiðnaður ánægður með hlutskiptin

Fram kom í fréttatilkynningu frá Knut Kroepelien, framkvæmdarstjóra Energi Norge, samtaka um 280 orkufyrirtækja í Noregi, að hann sé ánægður með ákvörðun Alþingis. Tíu ár séu nú liðin frá því að orkupakkinn hafi verið innleiddur innan Evrópusambandsins sem Kroepelien segir vera of langan tíma fyrir regluverk sem skipti Noreg jafn miklu máli. Það eigi sérstaklega við í ljósi þeirrar miklu orku og auðlinda sem Norðmenn hafi úr að ráða.

Sjá einnig: Þriðji orkupakkinn samþykktur: Katrín skorar á Miðflokksmenn að vera samkvæmir sjálfum sér

Kjell-Børge Freiberg, olíu- og orkumálaráðherra Noregs hefur einnig lýst því yfir að innleiðing þriðja orkupakkans sé mikilvægur fyrir þátttöku Noregs í orkusamstarfi Norðurlandanna. Slíkt samstarf flækist til muna þegar ólíkur lagarammi gildi í Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Danmörku, en hin þrjú ríkin eru öll hluti af Evrópusambandinu.

Nei til EU vonsvikin með ákvörðun Alþingis

Kathrine Kleveland, formaður norsku samtakanna Nei til EU, sem lögðust gegn innleiðingu þriðja orkupakkans í Noregi, segist vera vonsvikin með ákvörðun Íslendinga í samtali sínu við norska miðilinn Nationen. Þar kemur fram að samtökin hafi gert sér vonir um að höfnun Íslendinga myndi koma í veg fyrir aðild Norðmanna að ACER, samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði. Kleveland telur þó að það sé enn hægt að koma í veg fyrir aðild Norðmanna að ACER og hyggjast samtökin láta reyna á innleiðingu þriðja orkupakkans fyrir dómstólum þar í landi.

Því er ljóst að barátta andstæðinga þriðja orkupakkans gegn innleiðingu hans er hvergi nærri lokið, eins og andstæðingar pakkans hér á landi hafa sömuleiðis látið hafa eftir sér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×