Fellibylurinn Dorian hélt áfram að valda tjóni á Bahamaeyjum í dag og í morgun þó styrkur hans hafi minnkað til muna og telst nú þriðja stigs fellibylur. Ríkisstjóri Georgíu-ríkis Bandaríkjanna hefur fyrirskipað allsherjar rýmingu strandlengjunnar og í nágrannaríkjunum hefur fólk verið að undirbúa sig fyrir storminn.
Bahamaeyjar eru á floti, íbúar sitja víða fastir vegna flóða, fjöldi er særður og í það minnsta fimm eru látin vegna þriðja stigs fellibylsins Dorian sem hékk enn yfir eyjunum í morgun.

„Hér ríkir alger sundrung. Ástandið er svo slæmt að það minnir helst á heimsenda. Það lítur út eins og hér hafi sprungið sprengja,“ sagði Lia Head-Rigby, sjálfboðaliði í samtökum sem sjá um björgunaraðgerðir eftir fellibylji. Lia flaug yfir eyjuna Abaco sem er ein verst leikna eyjan. „Við getum ekki reist á ný það sem var þarna áður. Við þurfum að byrja frá grunni.“
Hún segir samstarfsmann sinn á Abaco hafa sagt sér að „margir fleiri væru látnir“ og að verið væri að safna líkunum saman.
„Við upplifum nú sögulegan harmleik víða á Norður-Bahamaeyjum. Við einbeitum okkur nú að leit, björgun og endurheimt,“ sagði Hubert Minnis, forsætisráðherra Bahamaeyja, fyrr í dag.
Seint á þriðjudagskvöld fóru björgunarteymi að koma fólki í öruggt skjól á Grand Bahama með aðstoð sæþota, báta og jafnvel risavaxinna jarðýta, sem ferjuðu börn og fullorðna í skóflunni.