Lífið

Nicki Minaj segist hætt í tónlist

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Nicki Minaj skaust hratt upp á stjörnuhimininn eftir að hún gaf út sína fyrstu plötu árið 2010.
Nicki Minaj skaust hratt upp á stjörnuhimininn eftir að hún gaf út sína fyrstu plötu árið 2010. Vísir/Getty
Bandaríski rapparinn Nicki Minaj tilkynnti í dag að hún væri hætt í tónlistarbransanum og ætlaði að einbeita sér að því að stofna fjölskyldu.

„Ég hef ákveðið að hætta störfum og eignast fjölskyldu. Ég veit að þið eruð ánægð núna,“ skrifaði Minaj á Twitter. Hún giftist nýverið kærasta sínum, Kenneth Petty, sem hlotið hefur dóm fyrir kynferðisbrot og manndráp. 

Minaj sendi aðdáendum sínum jafnframt ástarkveðjur við þessi tímamót, sem margir hafa þó dregið í efa að marki þau endalok sem hún lýsir í tístinu. Minaj er enda þekkt fyrir hálfgerð „klækjabrögð“ á samfélagsmiðlum en árið 2016 birti hún til að mynda lista af lögum, sem hún sagði vera af nýjustu plötu sinni. Listinn reyndist falsaður.  

Þá hefur umfjöllun um Minaj undanfarin misseri einkum litast af deilum hennar og starfssystur hennar, rapparans Cardi B.

Sjá einnig: Cardi B og Nicki Minaj í útistöðum á tískuviku: „Ekki tala illa um dóttur mína aftur“

Minaj gaf út fyrstu plötu sína, Pink Friday, árið 2010 og hefur slegið hvert metið á fætur öðru síðan. Hún hefur unnið til fjölda verðlauna á verlinum, þar á meðal sex AMA-verðlaun og 11 BET-verðlaun. Þá hefur Minaj verið tilnefnd til 10 Grammy-verðlauna.

Hér að neðan má sjá tónlistarmyndbandið við eitt vinsælasta lag Minaj, Anaconda.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×