Fótbolti

Jón Daði: Fannst markið svo ljótt ég gat ekki fagnað

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Jón Daði Böðvarsson sagði þriðja markið í leik Íslands og Moldóvu í undankeppni EM 2020 hafa verið sitt, en markið var upphaflega skráð sem sjálfsmark hjá UEFA.

„Já, þetta var ég,“ sagði Jón Daði þegar hann var spurður út í markið í viðtali við Henry Birgi Gunnarsson í leikslok á Laugardalsvelli.

„Fyrsta markið í ansi langan tíma. Það er kannski hluti af því að vera framherji að maður fái eitthvað drasl mark og þá er maður kominn aftur í gang.“





Jón Daði fagnaði markinu lítið sem ekkert, sem renndi stoðum undir grun manna að markið hefði í raun verið sjálfsmar.

„Ég var orðinn svo þreyttur og ringlaður. Fannst þetta svo ljótt mark að ég gat eiginlega ekki fagnað þessu,“ sagði Selfyssingurinn.

Ísland vann leikinn 3-0 og er nú á toppi riðilsins, en Frakkland og Tyrkland spila sína leiki í kvöld.

„Þetta var sýnd veiði en ekki gefin. Þetta eru erfiðustu leikirnir en það var frábært að fá 3-0 sigur.“

„Það tók tíma að átta sig, við vissum ekki mikið um þetta lið.“

„Ég bjóst við aðeins erfiðari leik ef ég á að vera alveg hreinskilinn. Ég hélt þeir yrðu agaðari varnarlega, þeir skildu eftir mikið svæði opið.“

Jón Daði spilaði í framlínunni með Kolbeini Sigþórssyni, í fyrsta sinn sem þeir spila saman frammi síðan á EM 2016.

„Þetta var nostalgíu augnablik. Hann er í góðu formi og það sést ekkert að hann sé eftir á.“

„Það var mjög þægilegt að spila með honum upp á topp,“ sagði Jón Daði Böðvarsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×