Fótbolti

Southgate um Kane: Hann er stórkostleg fyrirmynd

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Harry Kane er af mörgum talinn einn af bestu framherjum heims
Harry Kane er af mörgum talinn einn af bestu framherjum heims vísir/getty
Gareth Southgate, landsliðsþjálfari Englands, hrósaði Harry Kane í hástert eftir öruggan sigur Englands á Búlgaríu í undankeppni EM 2020 í gærkvöld.

Kane skoraði þrennu í 4-0 sigri Englendinga og sagði þjálfari hans að framherjinn væri stórkostleg fyrirmynd fyrir yngri leikmenn Englands.

Kane skoraði fyrsta mark leiksins eftir sendingu frá Raheem Sterling í fyrri hálfleik og bætti svo við mörkum úr tveimur vítaspyrnum í seinni hálfleik.

„Við stóðum og horfðum á hann taka vítaspyrnur í um tuttugu mínútur á æfingu í gær. Þegar þú horfir á ferlið sem hann fer í gegnum þá sérðu að hann gefur sér eins mikinn möguleika á að ná árangri og hann getur með öllum þessum æfingum,“ sagði Southgate eftir leikinn.

„Fyrir ungan leikmann að geta horft á hvað hann gerir, geta fylgst náið með honum og séð hvernig hann nálgast leikinn, það er stórkostlegt.“

Kane er nú kominn með 25 A-landsliðsmörk fyrir England í 40 leikjum.

„Hann vinnur svo vel fyrir liðið, er meira en til í að falla til baka og búa til pláss fyrir aðra, senda á liðsfélaga sína. En þegar hann fær sín tækifæri þá er hann með frábært hugarfar og tæknilega séð er hann frábær framherji.“

England hefur unnið alla þrjá leiki sína í undankeppninni til þessa og situr á toppi riðils síns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×