Erlent

Fundu líkamsleifar við fjársjóðsleit undir húsi einræðisherra

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Alfredo Stroessner var einræðisherra í Paragvæ í 35 ár. Hann lést í Brasílíu árið 2006, eftir margra ára útlegð.
Alfredo Stroessner var einræðisherra í Paragvæ í 35 ár. Hann lést í Brasílíu árið 2006, eftir margra ára útlegð. Vísir/getty
Líkamsleifar fjögurra einstaklinga fundust grafnar í jörð undir baðherbergi húss í Paragvæ sem eitt sinn var í eigu Alfredo Stroessner, fyrrverandi einræðisherra í landinu. Yfirvöld munu nú rannsaka hvort um sé að ræða fórnarlömb ógnarstjórnar einræðisherrans.

Stroessner réð yfir Paragvæ í 35 ár, eða frá 1954 til 1989, og ríkti lengst allra einræðisherra í Suður-Ameríku. Hann tók við völdum eftir að hafa leitt valdarán gegn ríkisstjórn landsins og var sjálfum steypt af stóli í herforingjabyltingu.

Stjórnartíð Stroessner einkenndist af blóðsúthellingum og kúgun minnihlutahópa en talið er að skrifa megi a.m.k. 423 dauðsföll á ógnarstjórn hans.

Líkamsleifarnar fundust í grennd við Ciudad del Este, næststærstu borg Paragvæ. Þarlendir miðlar greina frá því að heimilislaust fólk sem hafðist við í húsinu hafi fundið líkamsleifarnar við fjársjóðsleit, sem sögð er vinsæl dægradvöl í Paragvæ.

Breska dagblaðið Guardian hefur eftir Maríu Stellu Cáceres, yfirmanni Minningasafnsins sem hefur það að markmiði að draga glæpi Stroessners fram í dagsljósið, að mikilvægt sé að komast að því hvort líkamsleifarnar séu af fórnarlömbum ógnarstjórnar einræðisherrans. Slík rannsókn mun nú fara fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×