Fótbolti

Lengsta bið Gylfa eftir marki með landsliðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi mundar skotfótinn í leiknum á laugardaginn.
Gylfi mundar skotfótinn í leiknum á laugardaginn. vísir/daníel
Gylfi Þór Sigurðsson er einn af þremur landsliðsmönnum Íslands í sögunni sem hafa náð að brjóta tuttugu marka múrinn. Það er hins vegar liðinn langur tími síðan að Gylfi skoraði síðast fyrir íslenska landsliðið.

Gylfi skoraði síðast fyrir íslenska landsliðið í leik á móti Króötum á HM í Króatíu 26. júní 2018. Síðan þá eru liðnir fjórtán mánuðir og fjórtán dagar og Gylfi hefur spilað níu landsleiki í röð án þess að skora.

Gylfi hefur heldur betur skilað sínu til liðsins í þessum níu leikjum og lagt upp mörk fyrir félagana en heppnin hefur ekki verið honum sjálfum upp við mark mótherjanna.

Það góða við það að Gylfi sé að fara spila í Albaníu er að hann hefur tvisvar endað langa markaþurrð með landsliðinu í leik í Albaníu.

Það gerðist síðast 24. mars 2017 þegar íslenska landsliðið mætti Kósóvó á albanskri grundu en Ísland vann þann leik 2-1 og skoraði Gylfi seinna mark Íslands. Hann hafði þá ekki skorað í 7 landsleikjum í röð. Það var metið í landsleikjum í röð án marks þar til nú.

Gylfi endaði líka sex landsleikja bið eftir marki með því að skora í Albaníu 12. október 2012 en það mark tryggði Íslandi sigur á Albönum í undankeppni HM 2014.

Það væri vel við hæfi að Gylfi héldi í þessa hefð sína og skoraði að minnsta kosti eitt mark í þessum mikilvæga leik á móti Albaníu í undankeppni EM 2020 á morgun.



Lengsta bið Gylfa eftir marki með landsliðinu.

9 landsleikir

(26. júní 2018 - enn í gangi)

- að bíða eftir 21. landsliðsmarkinu

7 landsleikir

(18. júní 2016 - 24. mars 2017)

- að bíða eftir 15. landsliðsmarkinu

6 landsleikir

(7. október 2011 - 12. október 2012)

- að bíða eftir 2. landsliðsmarkinu

5 landsleikir

(11. október 2013 - 9. september 2014)

- að bíða eftir 6. landsliðsmarkinu

5 landsleikir

(29. maí 2010 - 7. október 2011)

- að bíða eftir 1. landsliðsmarkinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×