Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata og formaður mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs Reykjavíkurborgar, hefur óskað komu Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur, lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, á næsta fund ráðsins.
Í tilkynningu frá Pírötum vegna málsins er ósk Dóru sögð koma í kjölfar kvartana yfir framgöngu lögreglu á tónlistarhátíðinni Secret Solstice og Hinsegin dögum. Bæði tilfellin hafa verið mikill fréttamatur: Það fyrra lýtur að leit lögreglu á tónleikagestum án dómsúrskurðar en fyrir vikið eru mörg mál í bótakröfuferli.
Síðarnefnda dæmið snýr að harðri gagnrýni Elínborgar Hörpu Önundardóttur, sem var handtekin á Hinsegin dögum um liðna helgi. Að hennar sögn var það vegna þess að lögreglan hefur horn í síðu hennar vegna starfa hennar fyrir No Borders-samtökin. Lögreglan segir aftur á móti að Elínborg hafi verið inni á lokuðu svæði og neitað að hlýða skipunum.
„Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð Reykjavíkurborgar fer með eftirlit með því að mannréttindi og borgaraleg og lýðræðisleg réttindi borgarbúa séu virt þvert á stjórnsýslu Reykjavíkurborgar og á viðburðum með aðkomu Reykjavíkurborgar. Því var ákveðið að fylgja þessum málum eftir með því að fá kynningu lögreglu og koma ábendingum á framfæri,“ segir í útskýringu Pírata.
Næsti fundur ráðsins fer fram á fimmtudag og er gert ráð fyrir að lögreglustjóri muni þar kynna umgjörð lögreglu og verklag við borgarhátíðir sem og svara spurningum ráðsins vegna starfa lögreglu.
Haft er eftir fyrrnefndri Dóru í tilkynningunni að virðing fyrir borgararéttindum séu hornsteinn lýðræðisins. „Lögreglan hefur einkarétt á beitingu valds gagnvart þegnum okkar lýðræðissamfélags og gríðarlega mikilvægt er að vel sé farið með það vald til að halda trausti borgarbúa á löggæslukerfinu og réttarríkinu sem slíku,” segir Dóra Björt.

