Laugardalsvöllur hefur verið rekinn með tapi í mörg ár. Í fyrra nam það tæpum 30 milljónum króna. En hvað skýrir þetta mikla tap á rekstri þjóðarleikvangsins?
„Ég held að þetta sé rekstrareiningin sem við erum að eiga við; völlurinn sem slíkur er kominn til ára sinna að upplagi og hönnun. Hann er 60 ára gamall. Það er erfitt að reka þennan leikvang, jafnvel þótt framlag komi frá Reykjavíkurborg,“ sagði Guðni Bergsson, formaður KSÍ, í samtali við Guðjón Guðmundsson í Sportpakkanum.
„Á þessu ári vorum við með stórleika Eds Sheeran sem hjálpar til við að lagfæra þessa slagsíðu á rekstri vallarins, þótt þetta komi öðruvísi inn í okkar reikningsuppgjör. Þetta vegur á móti tapinu á rekstri vallarins sem er ágætt.“
Guðni segir aðkallandi að fá nýjan þjóðarleikvang.
„Við erum byrjuð að vinna á fullu í undirbúningsfélagi sem hagsmunaaðilar Reykjavíkurborgar, ríkisvaldsins og KSÍ koma að. Þar rýnum við í hvaða kostir eru í stöðunni, hvað við þurfum mögulega að gera og hvað þetta muni kosta. Sú vinna er í fullum gangi,“ sagði Guðni.
„Þetta er langur ferill og hefur staðið yfir í um fjögur ár. En það er kominn tími á niðurstöðu í málið. Eins og ég sé þetta er gríðarlega mikil þörf á nýjum leikvangi.“
Fréttina í heild sinni má sjá hér fyrir neðan.
Íslenski boltinn