„Allt okkar starf hefur grundvallast á að alþjóðalög séu virt og samstöðu með mannréttindum,“ segir Einar Steinn Valgarðsson, stjórnarmaður í félaginu. „Við teljum að deilur Írasels og Palestínu verði ekki leystar á réttlátan hátt ef mannréttindi verði ekki höfð að leiðarljósi.“ Félagið hefur sent stjórnvöldum í Palestínu yfirlýsingu þar sem staða hinsegin fólks er hörmuð.
Tilefnið var fréttir af því að yfirvöld á Vesturbakkanum bönnuðu alla starfsemi samtaka hinsegin fólks. Þau voru hins vegar gerð afturreka með bannið eftir þrýsting frá mannréttindasamtökum víða um heim.

Munur er á lagalegri stöðu hinsegin fólks í Palestínu. Á Vesturbakkanum hefur samkynhneigð ekki verið bönnuð en á Gasaströndinni er hún ólögleg að viðlagðri harðri refsingu. Stjórnvöld á Vesturbakkanum hafa hins vegar verið að herðast í afstöðunni og þann tíma sem starfsemi hinsegin samtaka var bönnuð var almenningur hvattur til að tilkynna brot. „Þetta hefur kynt undir fordómum gegn hinsegin fólki og hvatt fólk til að taka lögin í sínar hendur,“ segir Einar.
„Við höfum aldrei skorast undan að gagnrýna palestínsk yfirvöld þegar kemur að mannréttindabrotum. En áherslan hefur verið á Ísrael sem hefur verið stórtækara í brotum.“