Innlent

Skortur á heimilislæknum á landsbyggðinni

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. Fréttablaðið/Ernir
Skortur er á heimilislæknum, sér í lagi á landsbyggðinni. Heilbrigðisráðherra segir að bregðast þurfi við mönnunarvanda til að hægt sé að efla heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað í kerfinu. 

Starfshópar voru stofnaðir á fundi ríkisstjórnarinnar í gær til að bregðast við starfsmannaeklu í heilbrigðiskerfinu. Heilbrigðisráðherra segir alvarlegan skort hafi verið á hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum á Landspítalanum. Staðan er einnig slæm á landsbyggðinni.

„Síðan eru það heilsugæslulæknar og það bítur einna helst úti á landi en auðvitað er það verkefni sem setja þarf betur í forgrunn þ.e.a.s. að fjölga menntuðum heimilislæknum,“ sagði Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra.

Margir heimilislæknar komast á aldur á næstu árum og því þarf að bregðast við vandanum strax.

„Við erum í átaki í þeim efnum en við sjáum að það eru allmargir heimilislæknar sem komast á aldur á næstu árum. Við þurfum að gera enn betur og ekki síst ef við ætlum að efla stöðu heilsugæslunnar sem fyrsta viðkomustað í kerfinu þá þarf þar að vera mjög góð og öflug mönnun,“ sagði Svandís.

Einhverjar hugmyndir til að efla mönnun?

„Já það eru mjög margar tillögur og hugmyndir til og þær lúta að öllu frá því að styðja við kjarasamninga og það er umræða sem stendur yfir núna á vegum fjármálaráðherra sem er samninganefnd ríkisins. Svo er það auðvitað mjög mörg önnur mál sem hægt er að bæta, til dæmis almennt starfsumhverfi og möguleika til starfsþróunar og teymisvinna. Að það sé gaman í vinnunni það skiptir mjög miklu máli að það sé áhugavert og spennand að starfa í heilbrigðisþjónustu,“ sagði Svandís.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×