Systkinin telja að Ingi Freyr Vilhjálmsson blaðamaður hafi fengið upplýsingar um rannsókn skattamálsins frá embætti héraðssaksóknara. Umræddar upplýsingar eru annars vegar þær að skattrannsóknarstjóri hafi kært málið til héraðssaksóknara árið 2016 og síðan að rannsókn héraðssaksóknara væri lokið í mars á þessu ári.
Skrifaði Ingi Freyr fréttir um málið í Fréttatímanum annars vegar 2016 og Stundinni nú í mars. Var í framhaldinu fjallað um málið í fleiri fjölmiðlum.

Frávísunarkrafa systkinanna er hins vegar byggð á því að Ingi Freyr, bróðir Finns, hafi skrifað stærstan hluta frétta af málinu á þeim tíma sem það var til rannsóknar. Því megi draga í efa hlutleysi Finns Þórs saksóknara.
Hæstiréttur kvað upp dóm í svipuðu máli síðastliðið haust. Þá vildi Ólafur Ólafsson, oft kenndur við Samskip, að Vilhjálmur Vilhjálmsson viki sæti sem dómari í Landsrétti vegna tengsla við son sinn Inga Frey Vilhjálmsson blaðamann sem hefði skrifað um Ólaf „undir neikvæðum formerkjum.“ Hæstiréttur taldi ekki ástæðu til að Vilhjálmur véki sæti í dómnum.

Ingi Freyr hefur fjallað mikið um fjársvik í sjávarútvegi undanfarin á og þeirra á meðal er mál Sjólaskipasystkinanna. Hann greindi meðal annars frá því í Fréttatímanum í október 2016 að nöfn systkinanna fjögurra væri að finna í Panamaskjölunum svokölluðu. Afrit af vegabréfum systkinanna var að finna í gögnunum sem lekið var frá lögmannsstofunni Mossack Fonseca.
Umrætt mál er nú til meðferðar fyrir dómstólum en næst á dagskrá er að taka fyrir frávísunarkröfu systkinanna. Meint skattsvik systkinanna nema 550 milljónum króna. Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari staðfestir tilvist kærunnar í samtali við RÚV og þær fari sína leið. Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari segir embættið hafna ásökunum systkinanna um leka.
Fréttin var síðast uppfærð klukkan 14:41.