Rýma þurfti Háskólann í Reykjavík í nótt vegna reyks sem upp kom upp í tæknistofu skólans, en í nótt fór fram árlegt LAN-mót á vegum skólans.
Á öðrum tímanum í nótt barst slökkviliði tilkynning um að eldur gæti hafa kviknað í húsnæði skólans. Búið var að rýma húsnæðið þegar slökkvilið bar að garði.
Í samtali við Vísis sagði varðstjóri hjá slökkviliðinu að orsök reykjarins hafi verið tölvuhleðslutæki sem brann yfir og reykur frá því sett brunavarnarkerfi í gang. Aðeins hafi þurft að reykræsta lítillega en engum hafi orðið meint af vegna málsins. Aðgerðir á vettvangi hafi gengið hratt og örugglega fyrir sig.
Þegar málinu var lokið gátu keppendur á LAN-móti skólans, HRingnum, haldið áfram að leika listir sínar á lyklaborðið.
