Lífið

Ungt fólk ljær Skaupinu ferskan blæ í ár

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Reynir Lyngdal mun leikstýra fjölbreyttum hópi listamanna sem koma að Áramótaskaupinu í ár.
Reynir Lyngdal mun leikstýra fjölbreyttum hópi listamanna sem koma að Áramótaskaupinu í ár. Anton Brink/Vignir Daði Valtýsson
Reynir Lyngdal mun leikstýra fjölbreyttum hópi listamanna sem koma að Áramótaskaupinu í ár. Hópurinn samanstendur af reynsluboltum sem áður hafa komið að Skaupinu og nýliðum sem hafa að undanförnu getið sér gott orð. Tökur á Skaupinu hefjast um miðjan nóvember.

Vala Kristín Eiríksdóttir sem er fædd 1991 og Jakob Birgisson, sem er fæddur 1998 munu þannig ljá Skaupinu ferskan blæ í ár og eflaust höfða til unga fólksins í landinu.

Vala Kristín er hluti af gríntvíeykinu í þættinum Þær tvær sem var sýndur á Stöð 2 og þá hlaut hún Grímuverðlaunin fyrir frammistöðu sína í Matthildi sem var á fjölum Borgarleikhússins. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Jakob slegið í gegn með uppistandi sínu sem er undir yfirskriftinni „Meistari Jakob“ og stimplað sig rækilega inn í uppistandssenuna.

Þetta er hópurinn sem kemur að Skaupinu í ár.
Auk Völu, Jakobs og Reynis munu Þorsteinn Guðmundsson, Dóra Jóhannsdóttir, Sævar Sigurgeirsson, Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir og Hugleikur Dagsson skrifa og stýra Áramótaskaupinu. Framleiðsla verður í höndum Republik og tónlistin í Skaupinu verður í umsjón tónlistarmannanna Árna Vilhjálmssonar úr FM Belfast og Svavars Péturs Eysteinssonar, sem er betur þekktur undir listamannanafninu Prins Póló.

Líkt og árið 2017 mun Dóra leiða handritsvinnuna en hún er upphafskona spunahópsins Improv Ísland og stundaði nám við UCB skólann í New York. Þorstein þar vart að kynna en hann var hluti af Fóstbræðra-hópnum goðsagnakennda og hefur margsinnis tekið þátt í Skaupinu.

Reynir hefur komið víða við á ferlinum, leikstýrt kvikmyndum, sjónvarpsþáttaröðum og þá hefur hann áður leikstýrt Áramótaskaupinu og tekið eftir því að allir hafi skoðun á ágæti Skaupsins.

„En þetta er líka mjög skemmtileg vinna, eiginlega forréttindi að fá að vinna með landsliði grínara að því að skoða árið í gegnum grín,“ segir Reynir

Verður skaupið pólitískt?

„Einhver sagði að allt væri pólitík svo svarið er líklegast já. En á sama tíma langar okkur að vinna grínið út frá upplifun fólksins í landinu á atburðum ársins. Fólk á að geta tengt við skaupið, hlegið saman að okkur sem þjóð. Það verður einhver söngur og pottþétt einhver dans, “segir Reynir.


Tengdar fréttir

Var alltaf kvíðabarn sem leið almennt illa

Jakob Birgisson er einn allra efnilegasti uppistandari landsins. Jakob sem er tvítugur þreytti frumraun sína í uppistandi í lok síðasta árs og fékk mikið lof fyrir frammistöðuna. Ari Eldjárn lét meðal annars hafa eftir sér að aðra eins hæfileika hefði hann ekki séð áður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×