Athöfnin fór fram sunnan við nýju brúna í Berufirði síðdegis í dag. Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar óskaði Austfirðingum og öllum Íslendingum til hamingju með áfangann. Sigurður Ingi fagnaði tímamótunum og sagði þau gæfuspor.
„Að athöfninni lokinni var haldið að Havaríi á Karlsstöðum á Berufjarðarströnd þar sem boðið var upp á veitingar í anda staðarhaldaranna þeirra Berglindar Häsler og Svavars Péturs Eysteinssonar sem betur er þekktur sem Prins Póló,“ segir í tilkynningu frá Vegagerðinni. Þar afhjúpaði ráðherra einnig veglegan skjöld sem festur verður á grjót á áningastað í Berufirði til minningar um áfangann.

Undirbúningur verksins hófst um árið 2007. Skiptar skoðanir voru um leiðir um Berufjarðarbotn sem seinkaði nokkuð undirbúningi verksins en verkið var boðið út í maí 2017. Lægsta tilboðið var frá Héraðsverki ehf. og MVA ehf. á Egilsstöðum. Framkvæmdir hófust 2017 og þeim átti að ljúka haustið 2018, en vegna veikra laga í sjó og þeirra viðbótarfyllinga sem þar urðu, náðist ekki að ljúka því fyrr en nú í sumar.
Nýi kaflinn um Berufjarðarbotn styttir Hringveginn um 3,6 kílómetra, sem nú er allur með bundnu slitlagi og er samtals 1.322 kílómetra.