Hryðjuverkasamtökin Ríki íslams hafa lýst yfir ábyrgð á sjálfsmorðsárás sem varð 63 að bana og særði fleiri en 180 til viðbótar í brúðkaupsveislu í Kabúl, höfuðborg Afganistans í gærkvöldi. Ashraf Ghani, forseti landsins, segir árásina „villimannslega“.
Árásarmaður sprengdi sjálfan sig í loft upp í sal þar sem fjölmennt brúðkaup var haldið. Ghani hafði kennt talibönum um að leggja grundvöllinn að hryðjuverkum. Talibanar hafa hafnað aðild að ódæðinu og fordæmt það.
Breska ríkisútvarpið BBC segir nú að Ríki íslams hafi sagt í yfirlýsingu að liðsmaður þess að hafi sprengt sjálfan sig upp á „fjölmennri samkomu“. Aðrir hafi sprengt upp bifreið fulla af sprengiefna þegar viðbragðsaðilar mættu á staðinn.
Afganskir fjölmiðlar hafa rætt við brúðgumann sem er sagður heita Mirwais. Hann segir fjölskylduna og brúðina í áfalli.
„Ég missti bróður minn, ég missti vini mína, ég missti ættingja. Ég mun aldrei sjá hamingju aftur á ævi minni,“ sagði brúðguminn. Hann treysti sér ekki til að mæta í jarðarfarir þeirra látnu sem eru þegar hafnar.
„Ég veit að þetta verða ekki síðustu þjáningar Afgana, þjáningarnar halda áfram,“ sagði hann.
Haft var eftir föður brúðgumans að fjórtán manns úr fjölskyldu hans hafi látið lífið í árásinni.
Ríki íslams lýsir yfir ábyrgð á árás á brúðkaup

Tengdar fréttir

Á sjöunda tug féll í sprengingunni í brúðkaupi í Afganistan
Sjálfsmorðsárásarmaður sprengdi sjálfan sig upp í miðri brúðkaupsathöfn.

Óttast að margir hafi látist í sprengjuárás á brúðkaup
Yfirvöld í Afganistan óttast að fjölmargir hafi látist eða særst í sprengjuárás sem gerð var á brúðkaup í Kabúl, höfuðborg Afganistan í kvöld.