Körfubolti

Skrúfur frá ökklabroti árið 2014 gera Kristófer erfitt fyrir: Missir af fyrstu leikjunum og þarf mögulega í aðgerð

Anton Ingi Leifsson skrifar
Kristófer í leik með KR í úrslitarimmunni í fyrra.
Kristófer í leik með KR í úrslitarimmunni í fyrra. vísir/vilhelm
Kristófer Acox, landsliðsmaður í körfubolta, verður ekki með Íslandsmeisturum KR í upphafi komandi leiktíðar vegna meiðsla. Kristófer þarf þó ekki í aðgerð.

Þessu greindi RÚV frá í gær en Kristófer er meiddur á ökkla. Hann ökklabrotnaði er hann var í skóla í Bandaríkjunum og fékk í kjölfarið tvær skrúfur í ökklann.

„Það kom í ljós að skrúfurnar eru ekki lengur í beininu og beinið er sem sagt brotið í tvennt og skrúfurnar eru fastar í einhverjum lið þarna í ökklanum,“ sagði Kristófer.

„Þetta er allt saman mjög illa farið, það er komin einhver gigt og liðirnir eru eitthvað leiðinlegir. Brjóskið í kring er líka eitthvað þunnt og einhver beinþynning þannig það er eiginlega allt í hakki.“

Kristófer bætir við að hann og læknirinn hafi ákveðið að bíða og sjá hvort skrúfurnar myndu losna en ef það gangi ekki upp þurfi hann að fara í aðgerð.

Þurfi hann í aðgerð gæti hann verið frá í fjóra til fimm mánuði en titilvörnin hjá KR hefst 3. október.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×