Eric Garner hafði gripið inn í og stöðvað slagsmál fyrir utan búð á Staten Island þegar hann var stöðvaður af lögreglu. Hann var óvopnaður en einn lögreglumannanna tók hann hálstaki og lést hann í kjölfar þess. Málið hefur vakið upp gríðarlega óánægju og hefur ítrekað verið mótmælt vegna málsins. Mótmælin spruttu upp sérstaklega vegna myndbands sem var birt af atvikinu þar sem Garner heyrist ítrekað kalla „ég get ekki andað.“

Kviðdómur New York fylkis neitaði árið 2014 að ákæra Pantaleo vegna málsins en alríkisyfirvöld höfðu haldið rannsókn á málinu gangandi síðan atvikið gerðist þar til þau tilkynntu í síðasta mánuði að hann yrði ekki ákærður.
Í myndskeiðinu sem náðist af atvikinu sést hvernig Pantaleo reyndi að handtaka Garner, eftir að hafa ásakað hann um að selja sígarettur ólöglega. Þegar það tókst ekki tók hann Garner hálstaki og endaði á að fella hann. Þá heyrist hann kalla minnst 11 sinnum „ég get ekki andað“ áður en hann fær flog. Réttarlæknir sagði á sínum tíma að hálstakið hafi átt þátt í dauða Garners.
Í myndskeiðinu hér að neðan sést gróf atlaga lögreglunnar að Eric Garner. Lögregluofbeldið varð til þess að maðurinn lést. Varað er við myndefninu. Það gæti vakið óhug.