„Það er mikill persónulegur heiður að taka á móti henni,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, í upphafi blaðamannafundar hennar og Angelu Merkel, Þýskalandskanslara, í sumarbústað forsætisráðherra á Þingvöllum. „Ekki bara af því að hún er áhrifamesti stjórnmálaleiðtogi Evrópu heldur einnig af því að hún hefur verið mikil fyrirmynd fyrir konur í stjórnmálum.“
Í inngangsorðum sínum sagði Katrín að hún vildi leggja áherslu á þrjá hluti á fundi þeirra. Ris öfgaafla í Evrópu, kynjajafnrétti og umhverfismálin en hún minntist á að í gær fór fram minningarathöfn um Okjökul sem missti stöðu sína sem jökull árið 2014.
Fyrir blaðamannafundinn hafði Katrín tekið á móti Merkel á hakinu á Þingvöllum þar sem hún og Einar Á. E. Sæmundsen, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, leiddu hana um helstu kennileiti garðsins.
„Ég sagði henni frá öllum hrikalegu sögunum af Þingvöllum og það er við hæfi að hittast hér á stað sem geymir svo mikið af sagnaminni þjóðarinnar,“ sagði Katrín.
„Mig hefur alltaf dreymt um að koma til Íslands,“ sagði Angela Merkel í stuttu ávarpi. „Það er ótrúleg tilfinning að ganga um Þingvelli.“ Hún sagði að það væri við hæfi að hittast á Þingvöllum þar sem Alþingi var fyrst stofnað og er vagga lýðræðis á Íslandi. Hún sagði það góða áminningu um að berjast áfram fyrir lýðræðislegum gildum.
Meðal þess sem Merkel ræddi við Katrínu voru samskipti Evrópuríkja vestur yfir Atlantshafið og vísaði þar aftur til Þingvalla. „Við erum hér stödd á mótum jarðflekanna á milli Bandaríkjanna og Evrópu. Samskipti Íslands og Bandaríkjanna hafa sögulega verið góð. Samskipti þvert yfir Atlantshafið eru sögulega góð. Bæði Þýskaland og Ísland hafa reitt sig á aðstöð Bandaríkjanna líkt og Marshall aðstoðin er dæmi um.“
Þá var Merkel jafnréttismálin einnig hugleikin og hrósaði Íslandi í þeim efnum. „Það er heiður að vera gestur á landi sem státar sig af því að vera á toppi jafnréttisvísitölu World Economic Forum. Þýskaland er í fjórtánda sæti og þarf að herða sig í þeim efnum. Sérstaklega þegar kemur að viðskiptalífinu og stjórnmálunum.“
Að lokum tók hún undir með Katrínu um að umhverfismálin væru eitt mikilvægasta viðfangsefnið. „Ég er ánægð að hafa kynnst forsætisráðherra sem er svo umhugað um framtíðina,“ sagði Merkel um Katrínu. Hún nefndi eigin reynslusögu af því að hafa nær verið strandaglópur í Bandaríkjunum vegna eldgossins í Eyjafjallajökli árið 2010. Íslensk náttúruöfl séu áminning um að bera virðingu fyrir umhverfinu. „Við þurfum að sýna auðmýkt gagnvart náttúrunni.“
Í spilaranum hér fyrir neðan má sjá útsendingu Vísis af blaðamannafundi katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, og Angelu Merkel, Kanslara Þýskalands.
„Hefur verið draumur lengi að koma til Íslands“
Tengdar fréttir
Lögreglan varar við umferðartöfum í dag og á morgun vegna heimsókna
Fjöldi þjóðarleiðtoga streyma nú til landsins í tilefni af sumarfundi leiðtoga Norðurlandanna sem fram fer á morgun.
Löfven fyrsti ráðherrann í fundarröð Katrínar með erlendum leiðtogum í dag
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra tók á móti Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar í Hellisheiðarvirkjun í dag.
Blaðamannafundur Katrínar Jakobsdóttur og Angelu Merkel
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, og Angela Merkel, kanslari Þýskalands, héldu blaðamannafund í forsætisráðherrabústaðnum á Þingvöllum.
Angela Merkel vakti mikla athygli á rölti sínu um borgina
Merkel kom hingað til lands í dag vegna sumarfunds leiðtoga Norðurlandanna sem fram fer á morgun