Innlent

Svalara loft á leið til landsins

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Íbúar á höfuðborgarsvæðinu hafa margir gert sér glaðan dag á Ylströndinni í Nauthólsvík í hitanum undanfarna daga. Nú kólnar aðeins í borginni en enn þá ætti þó að vera bjart yfir.
Íbúar á höfuðborgarsvæðinu hafa margir gert sér glaðan dag á Ylströndinni í Nauthólsvík í hitanum undanfarna daga. Nú kólnar aðeins í borginni en enn þá ætti þó að vera bjart yfir. Vísir/vilhelm
Búist er við hæglætisveðri næstu daga, hægum vindi og þá ætti að sjást til sólar víðast hvar á landinu. Líkur eru á síðdegisskúrum en þó lítil úrkoma í kortunum. Möguleiki er á þokulofti við ströndina, einkum að næturlagi.

Heldur svalara loft verður yfir landinu en að undanförnu en samt ætti hitinn að komast um og yfir 20 stigin þar sem best lætur. Mun svalara verður við sjávarsíðuna.

Veðurhorfur á landinu

Austan 3-13 m/s, hvassast syðst. Lægir með kvöldinu og hæg breytileg átt í nótt og á morgun. Bjart með köflum, en þokubakkar eða súld við sjávarsíðuna, einkum við A-ströndina og á Ströndum. Hiti víða 13 til 20 stig að deginum, en mun svalara fyrir austan.

 

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á föstudag og laugardag:

Breytileg átt 3-8 og bjart með köflum, en þokuloft við N- og A-ströndina. Hiti víða 14 til 19 stig að deginum, en mun svalara í þokunni. 

Á sunnudag og mánudag (frídagur verslunarmanna):

Austlæg átt, 3-10 m/s, hvassast við S-ströndina. Skýjað með köflum, en þokubakkar austast og síðdegisskúrir á stöku stað. Hiti 10 til 18 stig, svalast með A-ströndinni. 

Á þriðjudag og miðvikudag:

Norðaustlæg eða breytileg átt, skýjað að mestu og stöku síðdegisskúrir SV-til en fremur milt veður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×