Pedro Pierluisi, sem sór embættiseið sem ríkisstjóri Púertó Ríkó í síðustu viku, þarf að segja af sér í dag. Hæstiréttur Púertó Ríkó ógilti embættistöku hans þar sem hún hafi ekki verið staðfest í báðum deildum þingsins. Pierluisi ætlar að una úrskurðinum.
Dómsmálaráðherrann Wanda Vásquez ætti næst að taka við ríkisstjóraembættinu samkvæmt lögum Púertó Ríkó, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
Glundroði hefur einkennt stjónmálalíf Púertó Ríkó, sem er bandarískt landsvæði, undanfarnar vikur. Ricardo Rosselló sagði af sér sem ríkisstjóri í skugga fjöldamótmæla eftir að í ljós kom að hann og aðrir embættismenn höfðu haft uppi ósæmileg ummæli í lokuðum samfélagsmiðlahópi, meðal annars um söngvarann Ricky Martin og borgarstjóra San Juan.
Pierluisi var skipaður innanríkisráðherra og næsti handhafi ríkisstjóraembættisins 31. júlí. Hann sór embættiseið sem ríkisstjóri á föstudag. Skipan hans sem ráðherra hafði þá aðeins verið staðfest í neðri deild þingsins. Thomas Rivera Schatz, forseti öldungadeildarinnar, höfðaði mál á sunnudag til að fá embættistöku Pierluisi ógilta. Sjálfur taldi Pierluisi að þingið hafi ekki þurft að samþykkja skipan hans því þinghlé hafi staðið yfir.
Hæstiréttur skipar ríkisstjóra Púertó Ríkó að segja af sér

Tengdar fréttir

Búist við afsögn ríkisstjórans í skugga „Ricky-Leaks“ hneykslisins: „Einhver þyrfti að berja þessa hóru“
Ricardo Rosselló, ríkisstjóri Púertó Ríkó, hafði í frammi fjandsamleg ummæli í garð minnihlutahópa en neitar opinberlega að segja af sér. Heimildir fréttastofu CNN herma þó að hann hyggist gera það síðdegis.

Segir af sér í kjölfar RickyLeaks-hneykslisins
Ricardo Rosselló ríkisstjóri Púertó Ríkó tilkynnti það í nótt að hann muni segja af sér í byrjun næsta mánaðar í kjölfar mikilla mótmæla í landinu.