Íslenski boltinn

Markadrottningin Margrét Lára: Myndi ekki geta þetta nema með frábærum stuðningi góðra liðsfélaga

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Margrét Lára fagnar í kvöld.
Margrét Lára fagnar í kvöld. VÍSIR/DANÍEL
„Bara frábært Valslið í dag, ég er virkilega stolt af stelpunum og mér fannst þetta einn best spilaði leikur okkar í sumar. Margar sendingar á milli leikmanna, mikil hreyfing, varnarlínar og varnarleikurinn frábær,“ sagði markadrottningin Margrét Lára Viðarsdóttir að loknum 5-1 sigri Vals á Stjörnunni í kvöld.

 

 „Bara ánægð, það er svo mikil liðsheild og ég held að við séum þrjár í Valslsiðinu komnar yfir 10 mörk í sumar og svo er vörnin að gera vel. Mér finnst við vera að vinna þetta á varnarleiknum og þá kemur sóknarleikurinn með,“ sagði Margrét auðmjúk eftir að hafa verið spurð út í eigin frammistöðu.

 

Það var þó ekki hægt að sleppa henni það auðveldlega frá viðtalinu en þrenna Margrétar Láru þýðir að hún er komin með 202 mörk í efstu deild hér á landi.

 

„Ég er stolt og ánægð með þetta en ég myndi aldrei geta þetta með frábærum stuðningi góðra liðsfélaga. Maður skorar ekki mörk einn, þær hafa hjálpað mér í gegnum tíðina og matað mig vel. En drottningin Olga Færseth [markahæsti leikmaður efstu deildar kvenna með 269 mörk], ég held ég leyfi henni að halda þessu meti þar sem hún á það skilið,“ sagði Margrét um markaskorun sína í efstu deild.

 

Þá var Margrét spurð út í það af hverju hún hefði ekki tekið þátt á æfingu Vals í gær en Pétur Pétursson, þjálfari liðsins, vildi ekki gefa upp hver ástæðan væri.

„Pétur er stórkostlegur maður en ég held að fyrir einhverjum árum hefði ég ekki verið sátt. Ég hef samt lært það í gegnum tíðina að það er hollt og gott að hlusta á þjálfarann og það skilar sér oft.“

 

Að lokum var Margrét spurð út í komandi helgi, Verslunarmannahelgina sjálfa.

„Ég er svo heppin að vera fædd og uppalin í Vestmananeyjum svo ég fer bara heim, það veit enginn hvað gerist þar,“ sagði Margrét og glotti við tönn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×