Íslenski boltinn

Dramatík á Nesinu og Grótta ekki tapað síðan 24. maí | Sjáðu mörkin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Grótta kom til baka gegn Víkingi Ó.
Grótta kom til baka gegn Víkingi Ó. vísir/ernir
Óliver Dagur Thorlacius tryggði Gróttu stig gegn Víkingi Ó. í leik liðanna á Seltjarnarnesi í 13. umferð Inkasso-deildar karla í dag. Lokatölur 2-2.

Óliver Dagur skoraði jöfnunarmarkið úr vítaspyrnu þegar þrjár mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma. Grótta hefur ekki tapað leik í tæpa tvo mánuði, eða síðan 24. maí.

Axel Freyr Harðarson kom Gróttu yfir á 46. mínútu. Fimm mínútum síðar jafnaði Emmanuel Eli Keke fyrir Ólsara. Harley Willard kom gestunum svo yfir úr vítaspyrnu á 71. mínútu. Það virtist ætla að duga Víkingi til sigurs en þeir urðu að gera sér eitt stig að góðu. Mörkin úr leiknum má sjá hér fyrir neðan.

Klippa: Grótta 2-2 Víkingur Ó.


Ólsarar eru í 4. sæti deildarinnar með 21 stig. Seltirningar eru í 2. sætinu með 25 stig, fjórum stigum á eftir Fjölnismönnum sem rúlluðu yfir Hauka, 1-5. Þetta var fimmti sigur Fjölnis í síðustu sex leikjum.

Ingibergur Kort Sigurðsson skoraði tvö mörk fyrir gestina úr Grafarvoginum og Guðmundur Karl Guðmundsson og Arnór Breki Ásþórsson sitt markið hvor. Þá gerði Oliver Helgi Gíslason sjálfsmark.

Arnar Aðalgeirsson skoraði mark Hauka sem eru í 9. sæti deildarinnar með ellefu stig.

Rafael Victor skoraði tvö mörk þegar Þróttur R. vann 2-3 sigur á Njarðvík. Sindri Scheving var einnig á skotskónum hjá Þrótturum sem eru í 7. sæti deildarinnar.

Ivan Prskalo skoraði bæði mörk Njarðvíkinga sem eru í 10. sæti deildarinnar. Þeir hafa tapað átta af síðustu níu leikjum sínum.

Upplýsingar um úrslit og gang mála eru fengnar frá Fótbolta.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×