Erlent

Fjöldamótmæli á Púertó Ríkó

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Mótmælt af krafti.
Mótmælt af krafti. Nordicphotos/AFP
Þúsundir flykktust út á götur Púertó Ríkó í gær til þess að mótmæla Ricardo Roselló ríkisstjóra og krefjast afsagnar hans. Styr hefur staðið um Roselló undanfarna daga, eða allt frá því að hundruð einkaskilaboða á milli hans og nánustu samstarfsmanna láku út í síðustu viku.

Meðal þess sem kom fram í skilaboðunum var að Roselló sagði að hann yrði feginn ef Yulí Cruz, borgarstjóri San Juan, yrði skotinn og að söngvarinn Ricky Martin væri svo mikil karlremba að hann þyrfti að sænga hjá körlum í stað kvenna. Martin er samkynhneigður. Þá skrifaði Roselló einnig um Melissu Mark-Viverito, fyrrverandi forseta borgarráðs New York-borgar, og sagði einhvern þurfa að „berja þessa hóru“.

Útlit var fyrir, samkvæmt meðal annars BBC, að mótmæli gærdagsins yrðu þau mestu í sögu Púertó Ríkó. Þau voru ekki afstaðin þegar Fréttablaðið fór í prentun.

Roselló baðst afsökunar í myndbandi sem hann birti á Facebook á sunnudag og gekkst við því að hafa gert mistök. Hann hafnaði því að segja af sér heldur sagðist ætla að reyna að vinna aftur traust eyjaskeggja.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×