Erlent

„Slátrarinn í Beijing“ látinn

Kjartan Kjartansson skrifar
Li Peng á landsfundi Kommúnistaflokks Kína árið 2017.
Li Peng á landsfundi Kommúnistaflokks Kína árið 2017. Vísir/EPA
Li Peng, fyrrverandi forsætisráðherra Kína, er látinn, níræður að aldri. Hans er helst minnst fyrir að hafa lýst yfir herlögum og látið hermenn stráfella mótmælendur á Torgi hins himneska friðar fyrir þrjátíu árum.

Ríkisfjölmiðill Kína greindi frá andláti Li í dag og sagði hann hafa látist af völdum veikinda í gærkvöldi. Li gegndi ýmsum háum embættum fyrir Kommúnistaflokkinn á 9. og 10. áratugnum.

Hann var forsætisráðherra þegar mótmælendur kröfðust lýðræðis á Torgi hins himneska friðar í apríl árið 1989 og hermenn drápu hundruð óvopnaðra óbreyttra borgara. Kínversk stjórnvöld hafa þaggað fjöldamorðið niður allar götur síðan og aldrei gefið upp tölu yfir hversu margir féllu. Mannréttindasamtök telja þá skipta hundruðum, jafnvel þúsundum, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Vegna fjöldamorðsins, sem Li sagði „nauðsynlegt“, var hann nefndur „slátrarinn í Beijing“. Ríkisfréttastofan Xinhua sagði Li hafa gripið til „einbeittra aðgerða til að stöðva óróann og kveða niður ofbeldi gegn byltingunni“ í mótmælunum á torginu.

Mótmælin á Torgi hins himneska friðar voru þau stærstu í tíð kommúnistastjórnar Kína og stóðu þau yfir í sex vikur. Að kvöldi 3. júní fóru skriðdrekar ríkisstjórnarinnar inn á torgið og hermenn hófu skothríð á mótmælendur. Fjöldi mótmælenda féll eða særðist.

„Li Peng var slátrarinn í fjöldamorðinu 4. Júní og þannig ætti heimurinn og sagan að minnast hans. Vonandi einnig í kennslubókum í Kína einn daginn,“ segir Wu‘er Kaixi, einn leiðtoga mótmælanna, sem er nú í útlegð við BBC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×