Íslenski boltinn

Jón Óli: Hélt að við værum að fara að míga og skíta í okkur

Einar Kárason skrifar
Jón Óli stýrir skútunni í Eyjum.
Jón Óli stýrir skútunni í Eyjum. vísir/vilhelm
Jón Ólafur Daníelsson, þjálfari ÍBV, var eðlilega ánægður eftir 3-2 sigur Eyjastúlkna á Keflavík í kvöld en þetta var fyrsti sigur Eyjaliðsins í lengri tíma.

„Það skiptir öllu máli að fá þrjú stig. Ég var ánægður með fyrri hálfleikinn en óhress með að skora ekki fleiri mörk og geta verið aðeins afslappaðari í þessu,” sagði Jón Óli í leikslok.

„Svo komumst við í 3-1 og hefðum átt að geta silgt þessu betur heim en Keflavík er með frábært lið. Leikurinn varð óþarflega spennandi fyrir okkur sem stöndum í kringum þetta en stórkostleg skemmtun fyrir áhorfendur.”

ÍBV voru betri í fyrri hálfleiknum og hefðu hæglega getað skorað fleiri mörk áður en Keflavík jafnaði leikinn.

„Ég hugsaði með mér ”saga sumarsins”. Við erum að gera vel en fáum mark í andlitið. Við bjuggum okkur vel undir seinni hálfleikinn í hálfleik en því miður misstum við aðeins dampinn síðasta korterið og úr varð hasarleikur. Það var gæða fótbolti og ömurlegur fótbolti.  Hraði, spenna og taugaveiklun. Líf og fjör eins og alltaf í Eyjum.”

„Maður hélt að við værum að fara að míga og skíta í okkur,” sagði Jón Óli spurður út í lokamínútur leiksins eftir að Keflavík minnkaði muninn í eitt mark.

„En stelpurnar stóðu sig frábærlega. Stóðust áhlaupin og náðu að sigla þessu heim og fyrir það er maður þakklátur.”

Eyjaliðið hoppaði upp um þrjú sæti með sigrinum í dag en lygileg fallbarátta er í Pepsi Max-deild kvenna. Einungis þremur stigum munar á níunda og fimmta sætinu.

„Það geta allir unnið alla og það eru einhver fimm eða sex lið sem geta hæglega fallið. Menn þurfa að fara að varfærni í alla leiki,” sagði Jón að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×