Íslenski boltinn

Hólmfríður: Það hefur enginn trú á okkur

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Hólmfríður Magnúsdóttir hefur reynst Selfyssingum mjög vel í sumar
Hólmfríður Magnúsdóttir hefur reynst Selfyssingum mjög vel í sumar vísir/bára
Hólmfríður Magnúsdóttir og liðsfélagar hennar í liði Selfoss þurftu að sætta sig við tap gegn Breiðabliki á Kópavogsvelli í kvöld í Pepsi Max deild karla.

„Mér fannst við ekki spila vel í fyrri hálfleik en við komum brjálaðar út í seinni hálfleik og stóðum vel í þeim. Skorum eitt mark og hefðum getað gert betur og allavega jafnað leikinn því mér fannst við vera betri aðilinn síðustu 30 mínúturnar,“ sagði hin reynslumikla Hólmfríður eftir leikinn.

Breiðablik var 2-0 yfir í hálfleik eftir mörk frá Berglindi Björgu Þorvaldsdóttur og Alexöndru Jóhannsdóttur. Magdalena Anna Reimus minnkaði metin í seinni hálfleik og reyndu Selfyssingar hvað þær gátu að jafna undir lokin.

Í hálfleik benti lítið til þess að Selfoss myndi koma til baka, heimakonur voru með mikla yfirburði í fyrri hálfleik.

„Nei, það hefur enginn trú á okkur,“ sagði Hólmfríður. „En það er mikilvægt að við höfum trú á okkur sjálfum og gefumst aldrei upp. Selfoss-liðið er þekkt fyrir það.“

„Við erum allar í þrusu formi og við ætluðum okkur að koma til baka. Við höfum gert það áður og hvort sem það er Breiðablik eða eitthvað annað lið, það skiptir ekki máli.“

„Við höfum trú á okkur, en Breiðablik er líka með þrusugott lið og með frábæra leikmenn í hverri stöðu en við gáfum þeim góðan leik í dag.“

Fyrir leikinn hafði Selfoss ekki tapað leik í deild og bikar síðan 5. júní. Hefur þetta tap einhver áhrif á þær upp á framhaldið?

„Stundum er bara gott að fá spark í rassinn.“

„Það er ekkert alltaf þannig að maður á að vinna alla leiki, við komum bara brjálaðar í næsta leik,“ sagði Hólmfríður Magnúsdóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×