Innlent

„Það er allt gert kyn­ferðis­legt þegar það kemur að hin­segin fólki“

Sylvía Hall skrifar
Skaði Þórðardóttir segist hafa viljað opna umræðuna um hvernig það er fyrir transfólk að sækja sundstaði eftir umdeilda skopmynd Moggans.
Skaði Þórðardóttir segist hafa viljað opna umræðuna um hvernig það er fyrir transfólk að sækja sundstaði eftir umdeilda skopmynd Moggans. GUSTAVO MARCELO BLANCO
Skaði Þórðardóttir, tónlistarkona, birti í dag færslu á Facebook-síðu sinni þar sem hún lýsir því hvernig það er að fara í sund sem transkona. Tilefni færslunnar er umdeild skopmynd sem birtist í Morgunblaðinu á mánudag.

Á umræddri skopmynd má sjá karlmann í sturtuklefa kvenna í sundi þar sem hann segist vera búinn að „láta skrá sig sem konu“ í þjóðskrá. Myndin er þannig ádeila á nýsamþykkt lög um kynrænt sjálfræði og er hún teiknuð af Helga Sigurðssyni. Formaður Trans Ísland sagði myndina gefa ranga hugmynd um lögin og tilgang þeirra.

Sjá einnig: Formaður Trans Ísland segir skopteiknara Moggans til syndanna

Skaði segist hafa séð sig knúna til þess að deila með fólki hvernig það raunverulega er að vera trans á sundstöðum. Hún hafi aldrei ætlað sér að hætta að fara í sund þrátt fyrir hormónameðferð en fyrir tíu mánuðum síðan hafi hún þurft að byrja að nota sérklefa vegna óþæginda sem fylgdu því að fara í karlaklefann, en þar sem hún var enn með karlkyns kynfæri hafði hún alltaf notast við þann klefa í sundi.

„Í fyrsta lagi er ég kona og ég á ekkert heima í karlaklefanum, einnig var það orðið frekar óþægilegt hvernig sumir gláptu á mig og var ég spurð einu sinni hvað ég væri að gera þarna megin þegar ég var að klæða mig úr,“ segir Skaði en bendir á að spurningin hafi verið fyrir forvitnisakir og sá sem spurði hafi verið forvitinn hvers vegna dama væri í karlaklefanum.

Kynjaskipt almenningsrými látin hljóma eins og blæti transfólks

„Ég tók alveg meðvitaða ákvörðun um að gera þetta opinbert í ljósi þessarar umræðu varðandi „yndislega fyndnu“ skrítlu um karlinn sem þóttist vera kona til þess að horfa á konu. Ég vildi bara sýna hvernig raunveruleikinn er,“ segir Skaði í samtali við Vísi. Hún segir umræðu um transfólk í kynjaskiptum almenningsrýmum alltaf verða kynferðislega og transeinstaklingar séu málaðir upp sem öfuguggar.

„Það er mjög algengt hjá transeinstaklingum að þeir einfaldlega fari ekki í sund út af þessu tabú-i í kringum okkur og hvernig það hefur verið málað upp að það sé eitthvað kynferðislegt blæti hjá okkur að fara í sund.“

Hún segir marga líta svo á að transeinstaklingar hafi fundið sér leið til þess að fara „bakdyrameginn“. Að transkonur séu í raun karlmenn sem hafi viljað þröngva sér inn í heim kvenna og þetta sé einhverskonar kynferðisleg brenglun.

„Það er allt gert kynferðislegt þegar það kemur að hinsegin fólki, að þetta snúist bara um einhverskonar blæti eða perversjón.“

Í stöðuuppfærslu sinni segist Skaði hafa farið í karlaklefann þar sem hún er enn með karlkyns kynfæri. Hún líti þó svo á að hún eigi ekki heima þar.Vísir/Getty

Gróf og óviðeigandi skilaboð á stefnumótaforriti eftir sundferð 

Skaði ítrekar þó að starfsfólk þeirra sundstaða sem hún stundar sé ávallt viðkunnanlegt og skilningsríkt. Hún upplifi enga ógn við það að fara í karlaklefa en hún kjósi þó að nýta sér sérklefa til þess að forðast óþægileg augnaráð. Það sem hafi gert útslagið voru óviðeigandi skilaboð sem hún fékk á stefnumótaforriti eftir sundferð.

„Þó svo að ég búist ekki við því að verða fyrir einhverju áreiti í karlaklefanum en maður lenti í því að menn horfðu á mann, sem eru kannski óskaplega eðlileg viðbrögð en þetta fór að vera svolítið óþægilegt,“ segir Skaði og bætir við að hún vilji bara fara í sund eins og annað fólk, án þess að það valdi öðrum óþægindum.

„Eftir þessi andlitslausu og persónulausu skilaboð þar sem því var lýst hversu heit ég væri og að viðkomandi langaði í raun bara að nauðga mér í sturtuklefanum, þá fannst mér það verulega óþægilegt,“ segir hún en skilaboðin voru afar gróf og þeim fylgdi klámfengin lýsing á því sem viðkomandi vildi gera.

„Ég hef persónulega engan áhuga á því að vera aðgerðasinni“ 

Skaði segir ástríðu sína liggja í því að búa til tónlist. Það sé þreytandi að standa í stöðugri baráttu.GUSTAVO MARCELO BLANCO
Skaði segir margt hafa breyst í samfélaginu síðustu tuttugu ár og rifjar upp hvernig það var að alast upp sem hinsegin manneskja. Hún muni vel eftir því að hinsegin fólk hafi verið skrímslavætt og hafi mátt þola áróður frá trúarhópum þar sem það var málað upp sem andsetið og þar fram eftir götunum. Þá hafi drengir oft grínast með það að þeir myndu lemja samkynhneigða menn ef þeir færu að reyna við þá. Það hafi einfaldlega verið „normið“. 

„Hvernig hlutirnir hafa breyst á undanförnum árum er bara stórkostlegt. Í dag upplifi ég enga ógn eða leiðindi eða mismunun þó ég sé trans á Íslandi. Ég gæti örugglega fundið dæmi en ég þyrfti alveg að leita að því og ég nenni því ekki,“ segir Skaði sem hélt lengi vel að það væri auðveldara að fela það hver hún raunverulega væri. 

„Ég kom út stuttlega þegar ég var sautján ára en ég fór bara aftur inn í skápinn því mótlætið sem ég tók inn á mig var þannig að ég hélt að það væri auðveldara að vera „hetero“. Ég ætlaði að hafa þetta bara sem eitthvað leyndarmál.“ 

Hún segist sjálf hafa engan áhuga á því að vera aðgerðasinni. Hennar ástríða liggi í því að búa til tónlist og leyfa fólki að dansa og skemmta sér. Það sé þó oft þannig að hinsegin fólk neyðist til þess að vera í stanslausri baráttu. 

„Maður tekur það inn á sig þegar er talað um þig á einhvern vissan hátt, þá fer maður sjálfkrafa í einhverja stöðu að maður þurfi að svara fyrir eitthvað sem er engan veginn raunveruleikinn. Að maður þurfi að leiðrétta eitthvað rugl um sig af því maður tilheyrir einhverjum sérstökum hóp,“ segir Skaði.

„Því miður er raunveruleikinn þannig þú ert sjálfkrafa einhver aðgerðasinni til þess eins að mega vera til og eiga þann líkama sem þú hefur.“

Færslu Skaða má lesa hér að neðan. 


Tengdar fréttir

Formaður Trans Ísland segir skopteiknara Moggans til syndanna

Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir, formaður Trans Ísland, stuðnings- og baráttusamtaka fyrir trans fólk á Íslandi, gagnrýnir harðlega skopmynd sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Segir hún teiknarann á bak við myndina mega skammast sín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×