Sport

Keypti eldgamla Nike skó á 53 milljónir króna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nike-skórnir frá 1972.
Nike-skórnir frá 1972. Getty/Kirby Lee
Mjög sjaldgæfir Nike skór sem voru hannaðir af stofnanda Nike seldust fyrir metfé á uppboði í Bandaríkjunum. Sami maður keypti alla skóna á uppboðinu.

Nike Waffle Racing Flat Moon skórinn er frá árinu 1972 en aðeins tólf pör voru framleidd á sínum tíma. Skórnir voru hannaðir af Bill Bowerman, sem var annar af stofnendum Nike á sínum tíma.

Bowerman hannaði skóna sem voru síðan handunnir. Nokkrir þeirra voru síðan notaðir af hlaupurum sem tóku þátt í úrtökumóti Bandaríkjanna fyrir Ólympíuleikana í München árið 1972.

Þetta par frá 1972 seldist fyrir 437.500 Bandaríkjadali á uppboðinu og kostuðu því meira en 53 milljónir íslenskra króna.





Það var kanadískur safnari sem keypti skóna en hann keypti líka 99 önnur pör af skóm á uppboðinu sem voru allt frá Adidas skóm til Air Jordans.

Samtals borgaði Kanadamaðurinn Miles Nadal 850 þúsund Bandaríkjadölum fyrir hin 99 pörin og eyddi því samtals meira en 157 milljónum í gamla skó á þessu uppboði í New York. Nadal var mjög ánægður með kaupin.

Nike skórirnir frá 1972 settu með þessu nýtt met en gamla metið var sala á árituðum Converse skóm sem Michael Jordan notaði í úrslitaleik Ólympíuleikanna áreið 1984. Þeir kostuðu á sínum tíma 190.373 Bandaríkjadali eða rúmar 23,2 milljónir en eiga ekki metið lengur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×