Björgunarsveitarmenn fundu rétt í þessu göngumennina tvo sem sendu frá sér neyðarboð á tíunda tímanum í morgun vegna vandræða í Fljótavík fyrir vestan. Ekkert amaði að öðrum þeirra en hinn er ekki við fulla heilsu og þarfnast aðhlynningar. Göngumennirnir eru erlendir ferðamenn.
Verið er að vinna í því að koma þeim um borð í annað tveggja skipanna sem send voru á vettvang og því næst verður farið með hinn veika á slysadeild á Ísafirði.
Sjólagið á siglingaleiðinni til Ísafjarðar er ekki eins og best verður á kosið en þriggja metra ölduhæð er í Aðalvík og enn hærri fyrir Straumnesi. „Leiðindasjór,“ útskýrir Halldór Óli Hjálmarsson, í aðgerðarstjórn á Ísafirði, en hann stýrði aðgerðunum í dag. Þá bætir Halldór við að þokuloft sé fyrir vestan sem sé ekki til bóta.
Björgunarskipið Gísli Jóns fór af stað með björgunarsveitarmenn frá Ísafirði snemma í morgun og laust eftir klukkan tíu í morgun bað Lögreglan á Vestjörðum um aðstoð varðskipsins Þórs við að ferja björgunarsveitarfólk frá Bolungarvík til Fljótavíkur.
Fundu göngufólkið og halda til Ísafjarðar til aðhlynningar í þoku og „leiðindasjó“

Tengdar fréttir

Neyðarboð úr Fljótavík og varðskip á leiðinni
Neyðarboð frá tveimur göngumönnum í vanda í Fljótavík fyrir vestan barst laust eftir klukkan níu í morgun.