Íslenski boltinn

Tvær skoruðu sitt fyrsta mark í öruggum sigri Þórs/KA

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hulda Ósk skoraði tvö mörk.
Hulda Ósk skoraði tvö mörk. vísir/bára
Eftir þrjá tapleiki í röð án þess að skora mark vann Þór/KA öruggan sigur á ÍBV, 5-1, fyrir norðan í Pepsi Max-deild kvenna í dag.

Líkt og í síðasta leik lék Þór/KA án mexíkósku landsliðskvennanna Söndru Mayor og Biöncu Sierra en það kom ekki að sök. Arna Sif Ásgrímsdóttir var einnig fjarri góðu gamni vegna meiðsla.

ÍBV fékk gullið tækifæri til að komast yfir á 18. mínútu en fyrirliðinn Sigríður Lára Garðarsdóttir skaut yfir úr vítaspyrnu. Staðan var markalaus í hálfleik en í seinni hálfleik litu sex mörk dagsins ljós.

Hulda Ósk Jónsdóttir kom heimakonum yfir á 46. mínútu eftir laglegan einleik. Sjö mínútum síðar skoraði Hulda annað og ekki síðra mark.

Á 57. mínútu minnkaði Caroline Van Slambrouck muninn í 2-1 með skoti í slá og inn. Aðeins þremur mínútum síðar skoraði Agnes Birta Stefánsdóttir með skoti af löngu færi yfir Guðnýju Geirsdóttur sem átti erfitt uppdráttar í marki ÍBV í dag.

Þetta var fyrsta mark Agnesar í efstu deild. Á 83. mínútu kom María Catharina Ólafsdóttir Gros Þór/KA í 4-1. Þetta var einnig hennar fyrsta mark í efstu deild en María er fædd árið 2003.

Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir skoraði svo fimmta og síðasta mark Þór/KA á 88. mínútu.

Þór/KA er í 3. sæti deildarinnar með 20 stig. ÍBV er í 6. sætinu með tólf stig. Liðið hefur tapað fjórum af síðustu fimm leikjum sínum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×