Körfuboltamaðurinn Jeremy Lin óttast að NBA-deildin hafi gefist upp á sér.
Lin er án félags eftir að samningur hans við Toronto Raptors rann út. Hann varð NBA-meistari með Toronto í vor en kom lítið við sögu hjá liðinu.
„Þetta verður erfiðara með hverju árinu,“ sagði Lin í ræðu sem hann hélt á Taívan á vegum kristilegu samtakanna GOOD TV.
„Stundum er talað er um að þegar þú rekst á botninn sé eina leiðin upp á við. En mér finnst ég alltaf sökkva dýpra og dýpra. Sumarið hefur verið erfitt því mér líður eins og NBA-deildin hafi gefist upp á mér.“
Lin sló eftirminnilega í gegn með New York Knicks tímabilið 2011-12 og þegar hið svokallaða „Linæði (e. Linsanity) rann á stuðningsmenn liðsins og aðra körfuboltaáhugamenn.
Frá 2012 hefur Lin leikið með sex félögum og verið í misstóru hlutverki hjá þeim. Meiðsli hafa líka sett stórt strik í reikning hans. Lin er með 11,6 stig og 4,3 stoðsendingar að meðaltali í leik í NBA á ferlinum.
