Innlent

Sækja gönguhóp í sjálfheldu á Kattarhryggjum

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá Fimmvörðuhálsi. Myndin er úr safni.
Frá Fimmvörðuhálsi. Myndin er úr safni. Vísir
Björgunarsveitarmenn af Suðurlandi eru nú á leiðinni að sækja hóp göngufólks í sjálfheldu á Kattarhryggjum í Þórsmörk. Kona í hópnum er sögð slösuð á fæti og hópurinn treysti sér ekki lengra.

Í tilkynningu frá Landsbjörg kemur fram að sjúkraflutningamenn og hópar björgunarsveitarfólks frá Hvolsvelli og Hellu ásamt björgunarsveitarfólki sem var statt í Þórsmörk hafi verið kallað út upp úr klukkan sjö í kvöld. Þau séu nú á leiðinni á vettvang.

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir við Vísi að björgunarliðið fari gangandi í átt að hópnum. Tekist hafi að staðsetja hann betur með nýjum upplýsingum sem hafi borist. Gott veður og skyggni er á svæðinu. Markmið björgunarliðsins sé að komast sem fyrst á staðinn svo hægt verði að meta aðstæður.

Kattarhryggir eru hluti af gönguleiðinni um Fimmvörðuháls. Þeir séu mjóir fjallshryggir og mikill bratti hvoru megin við þá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×